Jörðin okkar er döpur vegna þess að mannkynið fer ekki nógu vel með gjafir hennar.

Auðlindir er annað orð yfir gjafir Jarðar.

Víða er sóun í gangi. Þá er verðmætum hent eða meira er notað en nauðsynlega þarf.

Með því að kaupa minna, flokka rusl, endurvinna og endurnýta er farið betur með auðlindirnar. Allir ættu að taka þátt í því!

KENNARAR / FULLORÐNIR

Náttúruauðlindir – gjafir

Orðið gjöf er haft um fleira en hinar hefðbundnu innpökkuðu jóla- og afmælisgjafir. Gjafir Jarðar eiga rætur í auðlindum hennar. Segja má að við fáum óeiginlegar gjafir úr ýmsum áttum. Góð heilsa er til dæmis dýrmæt gjöf! Spjalla um.

Dæmi um sóun

  • matarsóun – ekki henda mat
  • fatasóun – nota fötin þar til þau eru slitin – gefa öðrum ef þau verða of lítil
  • olíusóun – sniðganga plast, keyra og fljúga temmilega
  • pappírssóun – nota blöðin vel!

Sjálfbærni

Ef mannkynið myndi passa vel upp á Jörðina og gjafir hennar væri hún nýtt á sjálfbæran hátt. Þá myndu krakkarnir taka við henni í góðu standi þegar þau verða fullorðin.  — Má gjarnan nota orðið sjálfbærni með börnunum þótt fullkominn skilningur komi síðar.

Flokkun

Flest börn eru alin upp við að flokka rusl – og í leikskólum er það jafnan gert. Mikilvægt að ræða til hvers er flokkað. Hvað felst í að endurvinna og endurnýta?