Í landi Kópavogs er fjölbreytt umhverfi og um leið ólík búsvæði fyrir fjölda tegunda lífvera. Lífverurnar eiga sitt kjörlendi sem þær hafa aðlagast.

Vott

Votlendi er ákjósanlegt búsvæði fyrir fjölbreyttar lífverur. Til votlendis teljast t.d. ár, lækir, tjarnir, stöðuvötn og fjölbreyttar mýrar. Fjörur og grunnsævi teljast líka til votlendis.

  • Sjór er áberandi í náttúru Kópavogs. Fjörur sem tilheyra Kópavogi ná frá Fossvogslæk til Kópavogslæks. Þar eru leirur í botni Kópavogs og Fossvogs og einnig grýttar fjörur úti á Kársnesi. Lífríki þeirra er fjölskrúðugt (=margbreytt). Þangað sækir fjöldi fugla enda hægt að fá þar ýmislegt gott í gogginn, líka á veturna, þegar allt virðist frosið.

  • Ferskt vatn. Hluti Elliðavatns og áin Dimma eru í landi Kópavogs. Kópavogslækur og Fossvogslækur skoppa niður sitthvorn dalinn.  Fóelluvötn við Sandskeið eru í landi Kópavogs. Fáar óraskaðar mýrar eru eftir í landi Kópavogs. Svo er grunnvatn ofan í jörðinni. Þar er líka líf.

Sá lágfótu valhoppa með hávellu við Fóelluvötn!

Votlendi skammt frá Lækjarbotnum - (SH).
Gróður við Bláfjallaveg - (SH).

Vistgerð er landeining með ákveðin einkenni hvað varðar gróður, dýralíf, jarðveg, undirlag og loftslag. Innan sömu vistgerðar eru aðstæður þannig að þar þrífast svipuð samfélög plantna og dýra. Lesa meira um vistgerðir.

  1. Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má skoða ólíkar vistgerðir. Þar eru vistgerðakort. Pælið vel í vistgerða-kortasjánni og kynnist því hvernig hún virkar. Skoðið nokkrar lýsingar á svæðum í landi Kópavogs.
  2. Lýsið og takið myndir af búsvæðum nokkurra ólíkra lífvera. Þið megið gjarnan senda vel valið sýnishorn. Hvaða aðstæður í umhverfinu ætli henti viðkomandi lífveru sérstaklega vel? Hugsanlega gætuð þið útbúið sérútgáfu af tímaritinu Byggt og búið?

Þurrt (lítið blautt!)

Á þurru landi eru búsvæðin líka fjölbreytt. Þar skiptir máli:

  • Landslag – fjöll, ásar, skriður, klettar, hraun, vellir og láglendi
  • Berg og jarðvegur – hraun eða þétt berg, næringarríkur jarðvegur eða jafnvel enginn jarðvegur
  • Raskað / óraskað land

Gróður

Aðstæður í umhverfinu hafa áhrif á hvernig gróður vex á landi. Rakamagn er mikilvægur þáttur en einnig veður og jarðvegur.

Í jarðvegi skiptir næring, kornastærð, sýrustig og fleira máli fyrir gróðurinn. Jarðvegur er annað heiti yfir mold.

Í Kópavogi eru garðar og ræktuð svæði og ofan við byggðina má líka sjá skógræktarsvæði og fjólubláa lúpínu. Þegar lengra er haldið eru náttúruleg plöntusamfélög ríkjandi. Á náttúrulegum gróðurlitlum svæðum vex oft mjög fallegur og harðgerður gróður. Sums staðar er jarðvegseyðing og landið örfoka.

Þéttbýli

Segja má að þéttbýli sé búsvæði fólksins. Við myndun þéttbýlis verða miklar breytingar á búsvæðunum sem fyrir eru. Sumar lífverur, til dæmis margir fuglar, ná að laga sig að aðstæðum – aðrar hverfa. Með tilkomu þéttbýlis breytast aðstæður mjög mikið. Lesa meira um áhrif byggðar á lífverur.

Af kortasjá Kópavogsbæjar.
  • Setjið ykkur í spor skógarþrastar sem venjulega hreiðrar um sig í litlu tré við læk. Eitt vorið er allt breytt….
  • Setjið ykkur í spor villts dýrs að eigin vali. Hvað gerist þegar þéttbýli myndast á búsvæði þess?

Áður en Máni, Sól og fjölskylda fluttu suður var legið í fasteignaauglýsingum.

    • Það er spennandi að búa í blokk.
    • Mig langar að hafa heitan pott.
    • Munið eftir hámarksverðinu okkar!
    • Staðsetningin skiptir máli.
    • Ég vil hafa ris.
    • Ættum við ekki bara að vera aðeins fyrir utan bæinn?
    • Hvaða skóli er bestur?
    • Mig langar ekki að búa í húsi með vondri lykt.

Á fasteignavefnum eru alls konar hús til að skoða.