Það rigndi.
Máni var kominn í stígvélin og þarna var regnúlpan. Hvað var hérna í vasanum? Jú, skel að austan. Máni hlassaði sér niður við útidyrnar. Hann velti skelinni fyrir sér.
Sól lá enn undir sæng. Hún las í bók. Stundum er hún svolítið lík sólinni. Ef hún hélt sig bakvið dúnmjúk ský þótti Sól líka gott að kúra undir sínu skýi, sænginni. En Máni var ekkert líkur tunglinu. Hann var t.d. sjaldan á ferð á nóttunni. Tunglið togar líka í sjóinn og veldur flóði og fjöru. Það gat Máni ekki gert. Þvert á móti togaði sjórinn heilmikið í Mána.
„Mig langar í venjulega fjöru“ hugsaði Máni. „Ætlarðu að liggja þarna eins og skata í allan dag, Sól?“ Máni stóð upp og fór út. „Bíddu!“ heyrðist kallað innan að. Máni rölti hægt af stað með skelina í höndunum.
Flóð og fjara - sjávarföll
Við getum merkt við hvert sjórinn nær þegar er háflóð og einnig hvert hann nær þegar er háfjara. Á milli þessara tveggja merkinga er hin eiginlega fjara. Á stórstreymi er fjaran breiðust og það gerist tvisvar í mánuði; kringum fullt og nýtt tungl. Þegar tunglið er hálft er fjaran minnst og þá er smástreymt.
Sjávarfallatöflur fyrir Kópavog (á ensku). Skoða má viku fram í tímann.
-
Lesa um sjávarföll á stjörnufræðivefnum.
-
Takið tvær myndir af fjöru á sama stað þar sem önnur sýnir háflóð og hin háfjöru. Þið getið líka mælt hversu breið hin eiginlega fjara er.
-
Hvernig sést hvort er flóð eða fjara við bryggjuna?
Ólíkar fjörur og vistgerðir
Fjörurnar sem tilheyra Kópavogsbæ ná frá Fossvogslæk til Kópavogslækjar.
Fjörur geta verið mjög fjölbreyttar og mismunandi lífmiklar. Flestar fjörur má flokka sem grýttar fjörur eða setfjörur (leirur eru dæmi um setfjöru). Ströndin í Kópavogi er ekki fyrir opnu hafi heldur inn af Faxaflóa og því verða öldurnar þar ekki mjög stórar.
Ólíkar lífverur fjörunnar eiga sínar kjöraðstæður og mismunandi búsvæði í ólíkum fjörum.
Yst á Kársnesi eru miklar uppfyllingar. Tilgangurinn er að auka landrými, enda eru komnar þarna miklar byggingar og höfn. Með uppfyllingum hverfur náttúruleg fjara.
- Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má skoða ólíkar vistgerðir bæði við sjávarsíðuna og á landi. Þar eru vistgerðakort.
- Pælið vel í vistgerða-kortasjánni og kynnist því hvernig hún virkar.
- Veljið fjöru í Kópavogi. Hvað kallast vistgerðin sem þar er mest áberandi? Hvað er einkennandi fyrir hana og metið hvort ykkur finnst lýsingin eiga við.
- Veltið fyrir ykkur hverju er fórnað með landfyllingum og hvað fæst í staðinn.