Bergið

Bergið sem er ríkjandi í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu er kallað Reykjavíkurgrágrýtið. Það er basalt, en basalt er algengasta tegund bergs á Íslandi. Basalt kemur upp í eldgosum. Í samanburði við önnur lönd eru eldgos mjög tíð á Íslandi.

Ísland er eldfjallaeyja.

Reykjavíkurgrágrýtið hlóðst upp á löngum tíma, í mörgum eldgosum. Sennilega er yngsti hluti þess 100-120 þúsund ára. Síðan þá hefur bergið brotnað niður, molnað og flust úr stað. Jarðfræðingar segja að bergið veðrist og rofni. Jöklar hafa verið afkastamestir í því ferli.

Á sýningu Náttúrufræðistofu Kópavogs er sýnishorn af Reykjavíkurgrágrýti sem var í grunni hússins.

Berg í Kópavogi - (SH).
Jökullandslag: Ávalar hæðir, útsýni frá Guðmundarlundi - (SH).

Ha, jöklar í Kópavogi?

Kverkjökull er skriðjökull norðan til í Vatnajökli - (SH).

Setjið fingurna á ykkur í hlutverk þykks jökuls og mótið dali og firði í leir. Prófið að setja leirklumpinn að hluta ofan í grunnt vatn sem á að tákna sjóinn. Hvar liggur þá ströndin?

Horfið í kringum ykkur í Kópavogi. Sjáið þið ávalar hæðir?

Ísaldarjökull

Fyrir um það bil þremur milljónum ára hófst ísöld og hún stendur enn. Á jökulskeiðum hennar mynduðust miklir jöklar sem huldu heilu löndin. Á hlýskeiðum ísaldar bráðnuðu jöklarnir og hurfu jafnvel alveg. Þá tók lífríkið kipp. Þannig hafa skipst á jökulskeið og hlýskeið. Álitið er að hvert jökulskeið standi í 80-100.000 ár, en hlýskeiðin í 10-20.000 ár.

Við lifum á hlýskeiði*. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um það bil 10.000 árum. Á síðasta jökulskeiði huldi jökull Ísland og Kópavog þar með.

*Loftslagsbreytingar af mannavöldum bætast ofan á hlýskeiðið sem við lifum núna.

Merki eftir jökulinn

Víða í Kópavogi má sjá merki eftir ísaldarjökulinn. Jöklar hreyfast, taka með sér urð og grjót sem á vegi þeirra verður og skila annars staðar. Það er kraftur í jöklum og séu þeir stórir og þungir geta þeir grafið út heilu dalina og djúpa firði. Jöklar pússa hæðir og lægðir og gera þær ávalar. Það er hið dæmigerða landslag Kópavogs. (Kanna staði: Jökulgarður við Þinghól – jökulrákir, sléttar klappir og hvalbök á Álfhól, Víghólum og Hádegishólum)

Hraun

Í landi Kópavogs, fyrir utan mestu byggðina, má sjá hraun og gíga sem eru yngri en Reykjavíkurgrágrýtið.

Á jarðfræðikorti Íslenskra orkurannsókna er hægt að fá fram upplýsingar um aldur margra hraunanna og hvað þau heita.

Á Reykjanesskaga hefur verið talsverð eldvirkni í nútíma (síðan síðasta jökulskeiði lauk) og mörg hraun runnið. Yfirleitt eru þetta frekar lítil gos. 19. mars 2021 hófst gos í Geldingadölum en þá hafði síðast gosið á skaganum árið 1240. Í lok sumars fór að draga úr gosinu.

3. ágúst 2022 byrjaði að gjósa á ný á svipuðum slóðum. Það gos stóð aðeins í um átján daga.

Gosið í Geldingadölum 21. apríl 2021 - (SH).

Þau hraun sem eru næst þéttbýli Kópavogs eru í öðrum bæjarfélögum. – Veltið fyrir ykkur muninum á hrauni og öðru bergi. Sum hraun eru úfin, önnur eru slétt og mynda eins konar hellur. Hvernig gróður er í hraunum? Takið myndir!

Hraun í landi Kópavogs og í næsta nágrenni - (Landslag ehf).