Allar tegundir fiska

Í Elliðavatni og Elliðaánum lifa allar tegundir íslenskra ferskvatnsfiska: bleikja, urriði, lax, hornsíli og áll.

Laxinn lifir í ánum eru þær eru frægar fyrir góða veiði.

Bleikju hefur fækkað í vatninu á undanförnum tveimur til þremur áratugum. Svo virðist sem rekja megi fækkunina til hækkandi hita í vatninu og fjölgun sýkinga af völdum sníkjudýra.

Silungur er eitt heiti fyrir bleikju og urriða.

Athugið að myndirnar eru langt frá því að vera í réttum hlutföllum. Lax er stærstur og hornsíli minnst. Áll er lengstur.

Hornsíli - (JBH).
Urriði - (JBH).
Bleikja - (JBH).
Lax - (JBH).
Áll - (JBH).

Ræktun lax

Í gegnum tíðina hefur laxaseiðum verið sleppt í Elliðaár með það í huga að fjölga löxum. Seiðin hafa ætíð verið fengin frá löxum úr Elliðaánum. Þá hefur þess verið gætt að ala seiðin undan mörgum foreldrum til að styðja við fjölbreytileika stofnsins.

Við fiskrækt af þessu tagi er mikilvægt að seiðin séu ættuð úr sama vatnakerfi. Ef notuð væru seiði úr öðrum ám er um að ræða fiska sem hafa aðlagast öðrum aðstæðum. Þessir fiskar æxlast síðan með þeim fiski sem fyrir er í ánum. Það getur veikt stofninn, sem þar hefur lifað og þróast í árþúsundir. Sama getur gerst ef eldisfiskur slæðist upp í árnar. Talað er um erfðamengun.

Ekki hefur verið sleppt seiðum í Elliðaárnar undanfarin ár en fylgst er með stofnstærðinni. Heildarfjöldi göngufiska hefur aðeins minnkað undanfarin ár sem og veiði.

Fiskvinna

  1. Hvað er það í byggingu fiska sem segir manni að þeir lifi í vatni?
  2. Kannski náið þið að veiða fisk í ferð ykkar að Elliðavatni.

    • Hvaða tegund veiddist?

    • Lýsið útliti fisksins.

    • Hvar eru tálkn, augu, eyruggar, bakuggar, sporður, stirtla, munnur og gotrauf?

  3. Víða er farið að ala lax í sjókvíum. Hvaða hættur geta falist í þvi fyrir umhverfið?

Fuglar

Það kemur líklega ekki á óvart að fuglalíf á hinu næringarríka Elliðavatni er blómlegt. Margar tegundir verpa við vatnið.

Þar má til dæmis sjá himbrima sem er óumdeilanlega fallegur fugl. Hann er stór og mikill og nokkuð grimmur en hann getur gleypt í sig andarunga og fiska eins og ekkert sé. En mikið er hann nú góður við ungana sína þegar hann syndir með þá á bakinu. Himbrimi þarf mikið pláss og á Elliðavatni og í næsta nágrenni eru oft einungis þrjú pör.

Annars eru ýmsar tegundir anda algengar á vatninu svo sem toppönd, skúfönd, duggönd auk stokkandar. Jú og álftir og gæsir.

  • Fuglarnir sem hér eru taldir upp eru vatnafuglar. Skoðið það sem sagt er um þá á Fuglavefnum og hlustið á hljóð himbrimans.
  • Fylgist með fuglum við vatnið og veltið fyrir ykkur atferli þeirra og útliti.

Góðir fuglaskoðunarstaðir eru víðs vegar við vatnið og eins við árnar og votlendi í kringum það. Hér er kort sem sýnir nokkra aðgengilega staði – merktir með bleiku.

Himbrimi og litli himbrimi - (JÓH).