Að vera kalt er vont! Að vera líka blaut(ur) er ennþá verra! Þegar þannig er ástatt er hugsunin einföld: Ég vil fara inn!

Hugsið um að klæða ykkur rétt – það skiptir mjög miklu máli!

Fataefni

Bómull er algeng í venjulegum fatnaði svo sem nærfötum, bolum, skyrtum, peysum og buxum t.d gallabuxum. Bómullarföt hafa þann galla að þorna hægt og tapa einangrun sinni ef þau blotna. Þá er stutt í að tennurnar fari að glamra.

Ull heldur betur einangrun sinni en bómull. Það hefur eitthvað með þræðina í ullinni að gera, en þeir eru langir og holir að innan. Ull heldur einangrun sinni enda þótt hún blotni svolítið. Þess má líka geta að svitalykt verður lítið áberandi í ullarfötum.

Silki er mjúkt og hlýtt. Þau sem eiga silkinærföt eiga gott!

Bambus fatnaður er mjúkur, teygjanlegur, andar vel og hrindir frá sér vatni.

Ýmis gerviefni eru vinsæl í útivistar- og íþróttafötum og eru flís, thermo og spandex dæmi um það. Þessi efni eru hlý og fljót að þorna. En þegar reynir virkilega á, þá mælir vant útivistarfólk með náttúrulegu efnunum ull, silki og bambus.

Föt úr gerviefnum eru óumhverfisvæn og brotna mjög hægt niður í umhverfinu. Þegar þau eru þvegin fara litlar plastagnir út í náttúruna.

Fatalisti

Nærföt – mælt er með síðum nærbuxum og ullar- eða silkibol

Ef mjög heitt er í veðri (gerist ekki almennt á skólatíma) þarf kannski ekki að fara í síðar, sérstaklega ef fyrirhuguð er mikil hreyfing í ferðinni.

Yfirhöfn –  úlpa, vindþéttur jakki eða regngalli

Fer eftir veðri hvað valið er. Augljóslega passa regnföt í rigningu, úlpa hentar í köldu og fremur þurru veðri og vindjakki í næðingi og hlýrra veðri (þegar of heitt er til að vera í úlpu).

Peysur

Það tengist yfirhöfn og veðri hvers konar peysur passa best. Mælt er með þunnri peysu og síðan þykkari peysu (t.d. lopapeysu) til að hafa undir regn- eða vindjakka. Undir úlpu þarf þunna eða milliþunna peysu.

Kostur við að vera með tvær peysur í vettvangsferð er sá að hægt er að „stilla hitastigið“ með því að fara úr annarri peysunni eftir aðstæðum.

Thermo-jakkar

Thermo-jakkar eru fisléttir, hlýir og þægilegir. Þá má nota líkt og þykka peysu.

Skór / stígvél –  fer eftir undirlendi og veðri hvaða skór henta:

Í mikilli rigningu, þegar farið er í fjöruferð eða kannað votlendi, ár og vötn eru stígvél það eina sem gildir.

Í öðrum tilvikum þar sem gengið er eftir ósléttu landi, hugsanlega með grjóti og þúfum er gott að vera í skóm með góðum og grófum botni. Enn betra er ef skórnir ná upp fyrir ökklann.

Í kulda er best að vera í kuldastígvélum, eða í þykkum sokkum. Ullarsokkar eru hlýrri og hentugri en bómullarsokkar.

Húfa og vettlingar

Hitatap líkamans er mest út frá höfðinu. Húfa skiptir ótrúlega miklu máli til að verða ekki kalt. Ef einhverjum er kalt á tánum getur hjálpað að setja upp húfu!!

Vettlingar eru hlýrri en hanskar og tvennir vettlingar geta komið betur út en einir þykkir.