Máni trúði ekki sínum eigin augum. Sól var vöknuð á undan honum. Hún var búin að skófla í sig hafragrautnum og var líka búin að sporðrenna brauðsneið með osti og síld. Hún sat þarna brosandi og það geislaði af henni eins og sól í heiði. Fyrir framan hana var fagurrautt epli, næsta fórnarlambið til að fara upp í munn og niður í maga! Sól sönglaði.

Máni nuddaði augun, jú, þetta var satt. Systir hans sat þarna ljóslifandi eða öllu heldur glaðvakandi. Alveg síðan hann mundi eftir sér hafði Sól verið hin mesta svefnpurrka. „Ertu ekki örugglega hress?“ „Jú, hvað sýnist þér?“ svaraði Sól. Máni klóraði sér í höfðinu, skóf síðan afganginn af hafragrautnum úr pottinum og náði sér í mjólk.

„Hvað eigum við að gera í dag“ spurði Máni tómlega. „Ég held ég fari í sund“, sönglaði Sól. Satt að segja saknaði Máni Neskaupstaðar. Hann saknaði Sigga og Valþórs, en þó einkum Hallsteins. Þeir voru alltaf eitthvað skemmtilegt að bauka. Það var nóg að gera í Neskaupstað. „Ég nenni ekki eina ferðina enn í þessa laug, ég fer að fá sundfit.“ Máni skoðaði fæturna á sér íhugull. „Ég vil vera í stígvélum og gera eitthvað almennilegt. Það er ekkert hægt að gera í þessum Kópavogi.“ Sól varð alvarleg, hugur hennar hvarflaði til krakkanna fyrir austan: „Við eignumst vonandi vini þegar við byrjum í skólanum og svo held ég að ef við leitum vel finnum við kannski gott stígvélaland hérna einhvers staðar.“

Og það gerðu þau svo sannarlega. Þau komust í þvílíkt stígvélaland að Máni hafði vart komist í annað eins. Hann tók gleði sína á ný. Sól teiknaði myndir í sandinn með priki, en Máni lék sér þar sem vatn seytlaði eftir yfirborðinu. Þetta var eiginlega ekki sandur, heldur rosalega þétt drulla. Það var þungt að hreyfa fæturna. „Kannski er ófreskja þarna niðri sem ætlar að soga okkur að sér“, sagði Máni ógnandi. Sól kippti sér ekki upp við þessi orð og hélt áfram að teikna. Svo skrifaði hún með stórum stöfum: Hér býr Kolla krakkasuga og stakk prikinu niður þar sem inngangurinn til hennar átti að vera. „Viltu ekki líta til hennar Máni?“ „Jú, endilega. Kannski gefur hún mér sandköku“, sagði Máni hlæjandi og gerði sig líklegan til þess að fara að moka með prikinu. Þá sá hann skyndilega einhvers konar hrúgald í sandinum og annað og annað. Þetta var úti um allt. „Sérðu Sól, er þetta ekki hár af Kollu?“

Setmyndun

Fyrir um tíu þúsund árum lauk síðasta jökulskeiði. Gera má ráð fyrir að síðan þá, hafi ár og lækir flutt aur og lífrænar leifar út í sjó þar sem þær hafa fallið til botns, meðal annars í Kópavogi. Þar hafa einnig ýmis efni sem sjórinn ber með sér sest til. Þar er nú Kópavogsleira. Hún er um 21 hektari (hektari er 10.000 fermetrar) og kemur í ljós á fjöru. Fleiri leirur eru á höfuðborgarsvæðinu og er Kópavogsleira með þeim stærstu.

Leirur eru leirkenndar. Ef við tökum sýni af leirunni og skoðum það vel sjáum við að það er mjög fínkornótt (ekki gróft eins og sandur eða möl) og heldur vel í sér rakanum. Kornin eru yfirleitt minni en 0,1 mm sem þýðir að hægt væri að raða a.m.k. tíu ögnum á eins millimetra langa línu.

Þess vegna festumst við í þessu!

Kópavogsleira - (SH).

Takið sýni af leir til að skoða í víðsjá ásamt jarðvegssýnum annars staðar frá. Berið saman.

Leirur geta verið hættulegar. Þið megið ekki fara of langt frá landi.

Búsvæði lífvera

Leirur eru mjög mikilvægar lífríkinu. Þar safnast ýmsir fuglar, enda mikið æti fyrir þá, bæði hryggleysingjar og gróður.

Verndun

Víða hérlendis hefur leirum verið spillt, eða þær jafnvel eyðilagðar. Á kortinu má sjá að stór hluti stranda í Kópavogi eru friðuð svæði. Þar er um að ræða búsvæðafriðun, enda eru svæðin mikilvæg fyrir lífríkið. Einnig er verndað vegna þess hve skemmtileg útivistarsvæði þetta eru og þar má læra svo margt.

Mikilvægt er að í nágrannasveitarfélögunum Garðabæ og Reykjavík eru strandsvæði í Skerjafirði sömuleiðis friðuð. Þar mætti þó gera enn betur.

  1. Hvaða hættur steðjuðu mögulega að Kópavogsleiru fyrir friðlýsingu?

  2. Sumum öðrum leirum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið raskað – hvernig þá?

Friðlýst strandsvæði innan Kópavogs eru grá með röndum - (Umhverfisstofnun).