Við landnám

Rétt fyrir landnám, má sjá fyrir sér ávalar hæðir og mýrlendi í lægðum, tjarnir, ár og læki. Víða er stórgrýtt. Fjölbreyttur gróður með trjám, kjarri og lyngi er áberandi. Við sjóinn eru selir og lífríkar fjörur. Fuglalíf er áberandi og stundum birtist refur. Engin dýr standa á beit og bíta gras nema gæsir og svanir. Fjallahringurinn er nokkurn veginn eins og nú.

Skrifið niður lykilorð úr þessari lýsingu. Getið þið séð náttúruna við landnám fyrir ykkur? – Af hverju voru ekki fleiri dýr á beit?

Eftir að land byggðist...

Hér eru þrjár „mýflugumyndir“ úr Kópavogi, frá ólíkum tíma, eftir að fólk var þangað komið.

Bærinn í Digranesi - (Kópavogsbær).

Sveitabæir

Lengi vel voru nokkrir sveitabæir í Kópavogi. Þar má nefna bæina Kópavog, Digranes, Fífuhvamm (áður Hvammskot) og Vatnsenda.

Kunnugleg nöfn!

  1. Horfið í kringum ykkur og veltið fyrir ykkur öllum mannanna verkum.
  2. Skoðið lagnakerfi í Kópavogi (veljið „veitur“). Hvar liggja lagnir í kringum húsið ykkar?
  3. Kíkið á myndasafn á vef Kópavogsbæjar og horfið sérstaklega eftir umhverfinu og náttúrunni. Veljið nokkrar myndir og segið frá hvað er áhugavert við þær. Myndavefur Kópavogs.
Lukka og nýbýlið Lundur - (JM - Kópavogsbær - myndasafn).

Nýbýli og smábýli

Þéttbýli Kópavogs er ungt í samanburði við Reykjavík og Hafnarfjörð.

Eftir 1930 var bújörðunum Kópavogi og Digranesi skipt upp í nýbýli og smábýli. Á smábýlunum var hægt að rækta og þar mátti byggja sumarbústaði. Nýbýlin voru aðeins stærri og á þeim var búskapur. Íbúarnir ræktuðu jörðina og komu sjálfir upp vatnsveitu. Kópavogsbúar fengu stælta vöðva.

Fyrsti vegurinn var lagður út frá Hafnarfjarðarvegi í Kópavog og var hann nefndur Nýbýlavegur.

Smám saman var sumarbústöðum breytt í heilsárshús. Þéttbýli varð til.

Salahverfi - (Kópavogsbær).

Þéttbýli

Núna má sjá malbikaðar götur þvers og kruss, manngerða garða, ljósastaura, hús og mannvirki út um allt. Ofan í jörðinni eru vatnslagnir, rafmagnslínur, ljósleiðarar og frárennsli. Þéttbýlismyndun er mjög mikil og yfirleitt óafturkræf breyting á náttúrunni.

óafturkræfur = sem ekki er hægt að taka tilbaka

Hamraborg framtíðarinnar? - (Kópavogsbær).

Áfram náttúra

Hér og þar má sjá lítið breytta eða óraskaða náttúru í þéttbýlinu. Fjaran er gott dæmi, en víða eru blettir með villtum gróðri, votlendi, spennandi klettum og fleiru. Þar lifa ótal lífverur. Margt er áhugavert að skoða, rannsaka og læra um. Fólki líður líka vel úti í náttúrunni og þar fær það gjarnan innblástur.

Miklar breytingar verða á búsvæði villtra lífvera, þegar þar myndast þéttbýli. Þar verður aldrei alveg dimmt, hávaði og alls konar truflanir aukast, loftgæði geta minnkað, gróðurlendi breytast, vatnakerfum er jafnan breytt, víðátta hverfur og svo geta komið inn í umhverfið nýjar lífverur sem lenda í samkeppni við þær sem fyrir eru.

Við jaðra byggðarinnar er stutt að fara út í víðáttuna og villtari náttúru. Stundum er sagt að íbúarnir þar búi í sveit.

Víðátta er mikilvæg fyrir margar lífverur, einkum fugla og stærri dýr. Margar fuglategundir helga sér óðal eða þurfa ákveðið rými í kringum sig. Fuglarnir tylla sér gjarnan á staur, þúfu eða stein til að horfa yfir.

Kópavogur gleypti móann minn

Hvað er húsamús annað en hagamús
sem hefur lært að nýta sér átroðsluna.
Ég horfi út um gluggann og velti því fyrir mér
hversu skammt er í að vetrarfeldur refsins
verður ekki lengur dulargervi.
Við veginn situr hrafn yfir skyrdós
goggurinn svarti ataður hvítu.

Á meðan teygir borgin enn úr sér,
á meðan bölvum við mávum og minkum.

Jónína Herdís Ólafsdóttir (1986 –

  • Hafið þið gleymt ykkur í náttúrunni við að skoða eitthvað?

  • Hvað gerist þegar fólk fær innblástur? Hafið þið fengið innblástur?

  • Finnið sem minnst raskaða náttúrubletti í umhverfi skólans og heimilis ykkar. Dveljið þar um stund – helst ein eða í litlum hópi.