Hvar?

Smádýralíf er mjög gróskumikið í Elliðavatni. Þar lifa margir einstaklingar og margar tegundir. Dýrin:

  • festa sig við steina í fjörunni,
  • lifa í botnseti úti í vatninu
  • svífa um eða synda í vatnsbolnum.

Vatnsbolnum? Ég tala alltaf um sundbol!

Vatnsbolur er orð sem haft er um þann hluta vatnsins sem er ekki við botninn eða ströndina.

Meðal smádýra í fjöru Elliðavatns eru áberandi mýlirfur, vorflugulirfur og vatnabobbar.

Toppfluga - hún telst til rykmýs sem er ætt mýflugna - (JBH).

Rykmýslirfur lifa í vatni og skríða áfram á gangvörtum. Lirfurnar púpa sig og eftir nokkurn tíma fljúga út úr púpunum fullorðnar flugur.

Vorflugur - (JBH).

Lirfur vorflugna lifa í vatni. Þær gera sér hús úr plöntuleifum eða sandkornum og nota silki sem þær framleiða sjálfar til að líma byggingarefnið saman.

Vatnabobbi - (JBH).

Hefur þú lent í bobba?

Þegar lengra kemur frá landi eru ertuskeljar og smágerðir ormar skyldir ánamöðkum áberandi.

Ertuskel - (JBH).
Röráni - (JBH).

Röránar lifa í rörum í botnleðjunni. Þessi rör eru gerð úr slími frá orminum sjálfum og ögnum úr leðjunni. Röránarnir hreyfa sig taktfast en draga sig ofan í rörin við minnstu truflun.

Smásærri dýr, þ.e. illsjáanleg nema í gegnum smásjá, eru einnig í Elliðavatni, má þar nefna vatnaflær, árfætlur, hydrur og skelkrabba.

Vatnafló - (JBH).

Til eru margar tegundir vatnaflóa. Þær hafa þó allar svipað yfirbragð.

Árfætla - (JBH).

Sömuleiðis eru til margar gerðir árfætlna, hér sjáum við augndíli.

Armfætla eða hydra - (JBH).

Hydrur (armfætlur /örmlur) festa sig við undirlag. Um leið og komið er við þær skreppa þær saman.

Skelkrabbi - (JBH).

Skelkrabbar lifa gjarnan á botninum. Þeir eru smáir og hreyfa sig hægt.

Efst í ánum, við útfall vatnsins, er mikið magn fæðu og næringar fyrir smádýr. Þar setjast þau líka að í stórum stíl og sía fæðu úr straumnum. Bitmýslirfur eru þar mjög áberandi.

Bitmý á ýmsum þroskastigum: púpa, fullorðin, lirfa, egg - (JBH).

Lirfur bitmýs festa sig á undirlag en sía næringu úr vatninu með hjálp skúfanna sem þær eru með á hausnum. Á myndinni sést einnig fullorðin fluga. Eins og nafnið bendir til bíta þessar flugur, en það gera reyndar aðeins kvenflugurnar.

Vatnamaur - (JBH).

Vatnamaurar eru loðnir um fæturna sem auðveldar þeim sundið.

Ekki hef ég nú tekið eftir að Siggi frændi sé sérstaklega góður í sundi.

Eftir því sem neðar dregur í árnar og svifögnum fækkar verður minna um bitmýslirfur og aðrar lífverur taka við, s.s. vatnabobbar, vatnamaurar, rykmýslirfur og vorflugulirfur. Þær sía ekki næringu úr rennandi vatninu heldur skrapa þörunga og aðra fæðu af undirlaginu eða eru rándýr.

Skoða má myndir og fræðast enn frekar um þessi smádýr og önnur á Greiningarlyklum um smádýr.

VETTVANGSFERÐ – allir í stígvél!

Fjörusýni:

  1. Takið smádýrasýni úr fjörunni á nokkrum stöðum við vatnið. Skráið hjá ykkur hvernig fjaran lítur út á sýnatökustaðnum. Farið eins að og vísindamennirnir.
  2. Takið grjót nálægt vatnsbakkanum á 20-30 cm dýpi, haldið háf undir ef einhverjar lífverur myndu detta. Setjið grugg, gróður og það sem fór í háfinn í ljóst vaskafat eða bakka. Burstið lífverurnar af grjótinu ofan í fatið með mjúkum bursta. Skoðið lífverurnar í fatinu en setjið þær síðan í gott ílát til frekari athugunar í skólastofunni.
  3. Steinarnir eru ólíkir. Sumir eru hrjúfir og hraunkenndir með holum og glufum, aðrir eru sléttir og máðir. Ætli mismunandi tegundir setjist að á þessu ólíka grjóti? Hvort skyldu fleiri lífverur lifa á hrjúfu grjóti eða því máða? Hvernig er best að athuga þetta?

Svifsýni:

Best er að sá eða sú sem er í vöðlum fari með svifháf út á vatnið og taki svifsýni á nokkrum stöðum. Einnig mætti taka sýni nær landi til samanburðar. Búast má við smásæjum lífverum sem best er að skoða í smásjá, víðsjá eða undir stækkunargleri.

Botnsýni:

Það er oft erfitt að skoða lífverur á vatnsbotninum. Þær vilja hverfa í drulluna. Ef leðjan er látin setjast til og látin eiga sig í nokkurn tíma koma dýrin sér fyrir á ný og verða sjáanleg.

Sýni úr ánum:

Það er áhugavert að skoða lífið í Elliðaánum. Veljið ykkur stein í ánum rétt neðan við vatnið og meðhöndlið hann eins og steinana við strönd vatnsins. Takið einnig stein neðar í ánum til samanburðar.