Allt er frá náttúrunni komið
Stundum er sagt að við höfum Jörðina að láni frá komandi kynslóðum. Þegar eitthvað er fengið að láni ber að skila því í sama ástandi, ef ekki betra.
Frá náttúrunni fáum við ALLT, til dæmis mat og efni í föt og hús. Stundum er það sem við fáum frá náttúrunni notað nánast beint, svo sem fiskur til að borða. Annað þarf að fara í gegnum langan vinnsluferil og má þar til dæmis nefna plastílát úr jarðolíu eða snjallsíma sem er tækniundur úr sjaldgæfum hráefnum.
Auðlindir
Við tölum um það sem við nýtum í og úr náttúrunni sem náttúruauðlindir.
Sumar auðlindirnar eru takmarkaðar og geta því klárast (d. málmar og fallegt hraun sem hverfur undir nýbyggingu). Aðrar auðlindir eru endurnýjanlegar og þær má nota út í hið óendanlega EF farið er varlega.
Gæta verður þess að taka ekki meira af endurnýjanlegu auðlindunum en sem nemur vexti þeirra því þá taka þær að minnka (d. fiskur í sjó, skógar og beitarland).
Svo eru til auðlindir sem eru þannig að þær breytast ekkert þótt við nýtum þær eða njótum (d. náttúrufegurð, bein sólarorka).
"There is no PLANet B!"
-
Veltið fyrir ykkur hlutunum í kringum ykkur. Úr hverju eru þeir?
-
Nefnið dæmi um endurnýjanlegar auðlindir. Oftast tengjast þær hringrásum og vexti, einhvers konar viðhaldi, landbúnaði, ræktun, beislun eða vernd.
-
Nefnið fleiri dæmi um auðlindir sem eru takmarkaðar.
Þótt ekki sé hægt að endurnýja takmarkaðar auðlindir má stundum endurnýta það sem frá þeim er komið. Það á til dæmis við um hráefni í tölvum og í rafgeymum rafbíla.
Ef við sóum eða spillum náttúrunni verða möguleikar fólks til að njóta náttúrugæða minni í framtíðinni. Sömuleiðis breytir maðurinn lífslíkum annarra lífvera á Jörðinni.