Í Kópavogi eru víða tré. Sum eru mjög gömul og orðin stór. Trén mynda skjól og þau eru góð fyrir andrúmsloftið.
Það má klifra í stórum og sterkum trjám, eða bara sitja hjá þeim. Þau lykta vel í rigningu.
Lauftré eru með laufblöð og barrtré eru með barrnálar. Sumar barrnálar stinga. Á haustin verða laufin litrík og falla svo af trjánum.
Í görðum eru víða trjárunnar.
Trjárunni – (SH).
Fuglar í skógi
Þessi fallegi skógarþröstur sækir í trjálundi. Hann getur sungið mjög fallega, sérstaklega á vorin.
Við getum séð fleiri fugla í skóginum. Til að þeir verði síður hræddir þurfum við að fara hægt og hafa lágt. Við þurfum líka að hlusta eftir þeim til að sjá þá.
Lerkitréð
Þetta fína lerkitré vex í Kópavogsdal. Það var pínulítið þegar það var gróðursett við sumarbústað árið 1936. Hvað eru mörg ár síðan?
Tréð stækkaði, börnin í sumarbústaðnum urðu fullorðin, byggð voru hús allt í kring og vegir voru lagðir.
Sumarbústaðurinn þurfti á endanum að fara, en eftir stóð lerkitréð. Garðyrkjustjóri Kópavogs lét laga til í kringum tréð og snyrta það. Þá varð tréð svo roggið að það fékk verðlaun: Tré ársins 2005!
Hvað ætli það verði gamalt?
Þrestir og starar eru algengir fuglar í Kópavogi. Stundum baða þeir sig í pollum (líka drullupollum!) og sulla. Það er svolítið fyndið.
Þeim finnst gott að vera í litlum hópum. Á nóttunni safnast þeir saman. Þá þurfa þeir ekki að vera hræddir og verður kannski ekki mjög kalt.