Ýmsar lífverur, einkum hryggleysingjar (=dýr án hryggjar!), kunna því vel að lifa í leirnum og éta þar smágerð dýr og þörunga. Sumar éta sjálft lífræna setið og leifar annarra lífvera þar með.
Þegar mest er (á haustin) má finna ~140.000 dýr á fermetra í Kópavogsleiru. Mörg þeirra eru agnarsmá og ósýnileg berum augum.
Sandmaðkur
Sandmaðkur er algengur á Kópavogsleirum. Þar eru um þrjátíu maðkar á hverjum fermetra.
Sandmaðkur telst til burstaorma og er skyldur ánamaðki. Ormurinn er með stíf hár út úr hverjum lið bolsins. Hann verður allt að 15 cm langur.
Sandmaðkurinn nærist á smáum lífverum sem lifa í leðjunni. Maðkurinn étur leðjuna með öllu saman og gengur hún aftur af honum í slöngulaga skítahrauka.
Sandmaðkar og aðrir burstaormar eru vinsælt æti margra fugla. Neflangir fuglar eins og tjaldur pota í hraukana og ná oft að slíta aftasta hluta maðksins af. Hann drepst ekki endilega við það heldur geta nýir liðir vaxið á hann.
-
Lýsið hraukum sandmaðksins í orðum, takið mynd eða teiknið. Sést dæld við hraukana? Hvað eru margir hraukar á einum fermetra?
-
Sandmaðkar eru varir um sig, en hugsanlega getið þið náð einhverjum. Þá er gott að nota stunguskóflu, læðast að heppilegum stað og stinga snöggt niður í leirinn.
-
Ef þið náið sandmaðki skulið þið skoða hann vel í víðsjá og einnig væri gaman að teikna hann.
Sandskel
Þegar sjór fellur að stingur sandskelin ranalega líffæri út á milli skeljanna. Hlutverk þess er að anda og afla fæðu. Í rananum eru tvær pípur og dælir samlokan sjó inn um aðra pípuna og út um hina. Á þessari leið fer sjór um tálkn, sem hafa það hlutverk að afla súrefnis úr sjónum. Tálkn sandskeljar sía einnig út smágerðar lífverur og lífrænar leifar sem hún nærist á.
-
Finnið sandskel og skoðið vel.
-
Getið þið, með hjálp sjónauka, séð fugla éta sandskel eða sandmaðk?
Ýmsir fjörufuglar, t.d. tjaldur, lifa á sandskeljum. Fuglarnir bíta í ranann og klípa hann af. Það verður að gerast snöggt og áður en sandskelin nær að draga hann inn og loka að sér.
Það er erfitt að opna lokaða sandskel því hún hefur afar sterka vöðva.
Athugasemd höfundar: Máni og Sól bera óttablandna virðingu fyrir Stebba.
Ekki dugar það skeljunum alltaf að lokast til að komast hjá því að verða étnar af fuglum. Sumir fuglar, t.d. silfurmáfur tekur lokaðar skeljar í gogginn (sandskel, krækling og fleiri tegundir), flýgur hátt upp í loftið og sleppir þeim síðan. Ef skelin lendir á hörðu grjóti þá brotnar hún og á þá fuglinn auðvelt með að éta innihaldið.
Fleiri lífverur
Sandskel og sandmaðkur eru mest áberandi lífverurnar í leirnum í Kópavogi. Þar lifa þó um fimmtíu tegundir lífvera. Nefna má til viðbótar mottumaðk, lónaþreifil og roðamaðk sem eru allir burstaormar. Einnig er mikið um lirfur leirumýsins sem er skordýr. Mjög fá skordýr lifa í sjó.