Hvar í fjörunni?

Fjörudýr leita skjóls undir þörungum eða steinum þegar fjarar út. Í fjörupollum þar sem sjór situr eftir safnast líka ýmis dýr.

Dýralífið breytist þegar haldið er upp eða niður fjöruna, en sjaldan raða dýrategundirnar sér þó í jafn glögg belti og þangið.

Til að skoða lítil fjörudýr er best að athuga undir þangið og velta við steinum.

Þangdoppa - (JBH).
  • Hver er munurinn á skeljum og kuðungum?

  • Hafið þið skoðað formin í skeljunum? Ef þið færuð ofan í vaxtarlínu sem er á yfirborði skeljar svona um það bil í miðjunni og svo eftir annarri sem er í jaðrinum fengjuð þið út tvö form. Hvað getið þið sagt um þau?

  • Kuðungaskeljar eru líka aldeilis frábærar að lögun. Þar fá stærðfræðileg hlutföll ekki síður að njóta sín.

  • Lítið í heimsókn á Náttúrufræðistofu Kópavogs og skoðið sérstaklega glerskáp með lindýrum. – – Hafið þið fundið perlu?

Lindýr

Lindýr er stór fylking dýra og lifir stór hluti þeirra í sjó. Þau eiga það sameiginlegt að vera lin, eru t.d. ekki með bein. Flest lindýr hafa þó um sig skel eða skeljar.

Sameinkenni þeirra er möttull, sem er eins konar kápa og einnig sérstakur „fótur“ sem dýrin skríða með eða nota til að grafa.

Dæmi um lindýr:
bertálknar,
nökkvar,
skeljar og kuðungar: olnbogaskel, klettadoppa, þangdoppa, beitukóngur, kræklingur.

Liðdýr

Eins og nafnið bendir til eru liðdýr liðskipt. Þau eru langstærsta dýrafylkingin á Jörðinni, það er að segja með flestar tegundir. Krabbadýr tilheyra henni og þar með krabbar, þanglýs, hrúðurkarlar, marflær og fleira.

Hrúðurkarlar mynda um sig kalkhús. Þetta eru algeng dýr á fjörugrjóti og skerjum, en einnig utan á skipum og bryggjum og flestu því sem er í grunnum sjó. Þegar sjór gengur yfir þá opna þeir húsin og teygja út eins konar veiðinet, sem þeir nota til að raka til sín fæðuögnum.

Marfló - (JBH).
Hrúðurkarlar - (SH).
Trjónukrabbi - (EP).
Dauðsmannshönd er holdýr - (JBH).
Stórkrossi - (JBH).
Snúðormar - (SH).

Ítarefni um smádýr fjörunnar:

Skrápdýr

Skrápdýr eru líka sérstök fylking og ákaflega fjölbreytt. Almennt eru dýrin hrjúf viðkomu, t.d. krossfiskar og ígulker. Hin mjúku sæbjúgu eru undantekning því þau eru mjúk.

Skrápdýr eiga það sameiginlegt að vera með sogfætur. Með þeirra hjálp hreyfir dýrið sig. Sogfæturnir eru mikilvægir í fæðuöflun, úrgangslosun og öndun og í þeim eru næmar skynfrumur.

Ormar og fleira

Alls konar ormar finnast í fjörunni. Þeir finna sér mismunandi bústaði. Sumir grafa sig ofan í leðju, aðrir halda sig í þangi. Sumir eru litskrúðugir, aðrir eru samlitir umhverfinu. Flestir eru grotætur og lifa á rotnandi leifum eða rándýr sem éta önnur smádýr.

Fleira kunnum við að rekast á í fjörunni. Líklegt er að við sjáum svampa, holdýr og mosadýr.

  1. Lesið um hrúðurkarla á Fjöruvefnum og skoðið myndbandið sem fylgir.
  2. Rannsakið lífverur sem þið finnið í fjörunni. Skoðið þær með hjálp stækkunarglers, í víðsjá, eða takið af þeim mynd (sem síðan má stækka), Getið þið greint dýrin. Horfið eftir einkennum sem kennarinn stingur upp á.

  3. Setjið grjót með hrúðurkarli og þang með snúðormum í sjóbúr (fiskabúr með sjó). Þegar lífverurnar eru orðnar rólegar og umhverfið er stillt gætu þær sent út anga sína. Fylgist með því.