Nemendur rannsaka Fossvogslæk - (GHG - Snælandsskóli)

Að vera úti

Þegar þið lærið náttúrufræði er viðfangsefnið náttúran sjálf. Því er eðlilegt að námið fari að miklu leyti fram utandyra.

Krakkar sem eru mikið úti læra sjálfkrafa ýmislegt og taka eftir spennandi hlutum sem þau hefðu ekki annars séð.

Ekki er hægt að ganga að öllum hlutum vísum í náttúrunni hvenær og hvar sem er. Þannig er til dæmis erfitt að rannsaka blómstrandi plöntur að vetri til, nú eða villta refi í þéttbýlinu. Samt er af nógu að taka og um að gera að grípa tækifærin þegar þau gefast til þess að rannsaka.

Það er gaman, ákaflega lærdómsríkt – og gagnlegt.

Hentugir staðir til vettvangsathugana

Eiginlega alls staðar má skoða náttúruna. Sumir staðir eru þó betri en aðrir af ýmsum ástæðum:

  • Þar er öruggt að vera, ekki mikil bílaumferð eða hætta á ísbjörnum!

  • Þar er fjölbreytt lífríki (samt getur verið áhugavert að skoða einsleitt svæði, t.d. grasflöt ef við erum þannig stefnd).

  • Þar eru ólík búsvæði, t.d. lækur og skógur (meira að skoða – meira fjör!)

  • Þar er fjölbreytt landslag og áhugaverðar jarðmyndanir (enn meira fjör!)

  • Þar er skjól (samt getur verið áhugavert að rannsaka suma vindasama staði).

  • Þar er fallegt.

  • Auðvelt er að komast þangað.

Þannig mætti halda áfram.