Tún – minni fjölbreytni…

Vatn leitar þangað sem landið er lægst. Vatn úr hlíðum safnast niður í dal. Áður fyrr var votlendi í Fossvogs- og Kópavogsdal en svo var það þurrkað upp og breytt í tún með því að grafa skurði.

Það er gaman að bjástra í skurðum. Þangað sækja endur, t.d. stokkendur, og þar vex fjölbreyttari gróður en á túnunum. Farið varlega!

Þurrkað land með túnum er ekki jafn frjósamt og er auk þess fátækara en votlendið af tegundum lífvera, til dæmis fugla og plantna.

… og meiri losun kolefnis

Kolefni er bundið í gróðri. Gróðurleifar varðveitast vel í vatni. Sé votlendi þurrkað kemst súrefni að kolefninu í gróðrinum og til verður koldíoxíð sem fer út í andrúmsloftið. Það er slæmt því koldíoxíð er gróðurhúsalofttegund.

Nú þegar búskapur er hættur á að endurheimta hluta votlendisins og auðga þannig lífríki svæðisins og binda kolefni. Það er spennandi að sjá hvernig til tekst.

Svona virka skurðir

Þverskurður skurðs! - (SH).

Áður en skurðurinn var grafinn náði grunnvatnið upp á yfirborð jarðvegsins (blá dauf lína). Þarna var mýri. Jarðvegurinn hélt í sér vatninu.

Eftir að skurðurinn var grafinn átti vatnið auðveldari leið burtu og vatnsborðið lækkaði (rauð lína). Jarðvegurinn þornaði og mýrin hvarf.