Hér er sagt frá nokkrum stöðum í Kópavogi sem vert er að gefa gaum. Þeir láta ekki endilega mikið yfir sér. Kannski viljið þið benda á fleiri staði

Asparlundur

Getur verið eins konar heimastöð vettvangsferða í Fossvogsdal. Þar er útikennslustofa með bekkjum og fleiru. 

Lífríki: Skógur – gróður – smádýr – fléttur – sveppir – fuglar – líf í læk.

Landslag: Fossvogsdalur sunnanverður, stutt í Fossvogslæk, grasflatir, skurðir.

Athyglisvert: Áberandi trjátegund í Asparlundi er ösp! Rætur aspar fara víða og þrengja sér stundum upp á óæskilegum stöðum svo sem í gegnum malbik, upp úr holræsum og jafnvel inni í bílskúrum. Á göngustíg við Asparlund var sett svo sterkt undirlag að asparræturnar komast ekki í gegn.

Álfhóll

Lífríki: Fjölbreyttur gróður – smádýr – fléttur

Landslag: Jökulsorfnar klappir (sjá einnig: Víghóla og Hádegishóla).

Varúð: Nálægð við bílaumferð og álfar á ferð.

Athyglisvert: Þrenging er á Álfhólsvegi til móts við Álfhól. Upphaflega átti þetta alls ekki að vera svona en verkið sóttist illa hjá vegavinnumönnum og ýmis óhöpp og vandræði komu upp. Þótti ljóst að álfarnir væru sökudólgarnir. Lesa meira um álfana!

Trjálundir í Kópavogsdal

Þarna er meðal annars hægt að skoða fjölbreyttan gróðurinn en útikennslustofa og Aldamótagarðurinn við Lækjarnes eru á sömu slóðum.

Lífríki: Skógur – gróður – smádýr – fléttur – sveppir – fuglar

Landslag: Kópavogsdalur norðanverður við Digraneskirkju – stutt að Kópavogslæk.

Athyglisvert: Lundirnir eru leifar frá þeim tíma er Kópavogur var sveit með sveitabýlum, sumarbústöðum, nýbýlum og smábýlum. Þá var plantað trjám við bústaðina. Lundirnir eru verndaðir með „bæjarvernd“. Fróðleiksskilti um trjálundi.

Almenn umfjöllun um Kópavogsdal.

Dimma – efsti hluti Elliðaáa

Á svæðinu er gömul sumarbústaðarlóð í eigu Kópvogsbæjar (Garður / Dimmuhvarf 6) sem gæti nýst til að leita skjóls og borða nesti.

Lífríki: Ferskvatnslíf, gróður, fuglar, smádýr – trjágróður.

Landslag: á sem fellur úr Elliðavatni, grónir árbakkar,  gömul sumarbústaðarlóð sem veitir skjól.

Varúð: Elliðaárnar geta sums staðar verið hættulegar og straumþungar. Einkum verður að gæta sín í bleytu og hálku. 

Athyglisvert: Við vegaspotta sem liggur útfrá veginum (ekki langt frá stíflunni) eru settjarnir til að hreinsa mengað vatn áður en það fer í árnar  (sjá umfjöllun).

Trjálundir við Nýbýlaveg

Þeir standa tveir lundir, skáhallt hvor á móti öðrum við Nýbýlaveg, rétt við þar sem Hjallabrekka og Birkigrund mæta veginum.

Lífríki: Skógur – gróður – smádýr – fléttur – sveppir – fuglar

Landslag: Inni í hverfi.

Áhugavert: Trjálundir frá gömlum tíma sumarbústaða og smábýla.

Varúð: Umferðargata í nánd.

Guðmundarlundur

Lífríki: Skógur – gróður – smádýr – fléttur – sveppir – fuglar

Landslag: Holt, með skipulögðu útivistarsvæði með heilmiklum skógi, fjölbreyttum garðplöntum, grasflötum, bekkjum og leiktækjum.

Guðmundarlundur var gjöf Guðmundar Jónssonar og fjölskyldu til Skógræktarfélags Kópavogs. Fjölskyldan ræktaði upp þetta land. Lesa um Guðmundarlund og sögu hans. Innan Guðmundarlundar er Hermannsgarður til minningar um Hermann Lundholm sem var fyrsti garðyrkjuráðunautur / garðyrkjumaður Kópavogsbæjar.

Rétt við Guðmundarlund er  Magnúsarlundur.

Magnúsarlundur

Gamlar sumarbústaðalóðir við hesthúsahverfið.

Lífríki: Skógur – gróður – smádýr – fléttur – sveppir – fuglar

Landslag: Myndarlegur trjáblettur við hesthúsahverfið. Stingur nokkuð í stúf við næsta umhverfi.Tvær gamlar sumarbústaðalóðir með fjölbreyttum gróðri og leifum mannvirkja.

Magnúsarlundur er skammt frá Guðmundarlundi, sem er nokkuð stórt skógræktarsvæði í eigu Skógræktarfélags Kópavogs.

Rútstún

Lífríki: Gróður; tún og tré, smádýr, fuglar

Landslag: Tún með skjólbelti í kring.

Svæðið er mjög skjólsælt og hentar vel í alls konar útileiki og athuganir á því lífríki sem er til staðar. Nokkur leiktæki og einnig sleðabrekka eru á Rútstúni.

Kópavogstún

Lífríki: Grasflatir og trjágróður

Jarðfræði: Sýnilegur jökulgarður (sjá umfjöllun undir Kópavogsdal)

Áhugavert að reyna að staðsetja jökulgarðinn. Flatir henta annars vel í alls konar útileiki og athuganir á því lífríki sem er til staðar. Þinghóll merkilegur sögulegur staður.

Lindaskógur

Gott umhverfi til útikennslu, þar sem gömul og fjölbreytt tré veita skjól.

Lífríki: Trjágróður – smádýr – fléttur – sveppir – fuglar

Landslag: Inni í hverfi, í brekku ofan við Lindaskóla og Leikskólann Núp.

Smalaholt

Gott útsýni og hringsjá.

Lífríki: Gróður – smádýr – fléttur – sveppir – fuglar

Landslag: Ávöl hæð á mörkum Kópavogs og Garðabæjar með villtum gróðri. Í landi Garðabæjar austan til er skipulagt útivistarsvæði og skógrækt.  Um hringsjá.

Engjaborg

Áður landamerki á milli sveitabæja – fornar minjar.

Lífríki: Gróður – smádýr – fléttur

Landslag: Inni í hverfi.

Áhugavert: Á staðnum eru rústir hringlaga mannvirkis, sem væntanlega hefur verið fjárborg, auk gerðis. Góður staður til að hugsa til fyrri tíma og búskapar í Kópavogi.

Fjárborg er hringlaga byrgi sem var hlaðið úr torfi eða grjóti til að skýla fé.

Varúð: Stutt í stóra umferðagötu.