Bláfjöll séð frá Vatnsendahlíð. Vífilsfell er til vinstri á myndinni og er hærra en hin fjöllin - (SH).

Bláfjöll er heiti á fjallgarði sem er að hluta í landi Kópavogs. Skíðafólk þekkir Bláfjöll en þar er líka áhugavert að ganga hvort sem er upp á fjöllin eða inn á milli þeirra þegar lítill eða enginn er snjórinn.

Landslagið einkennist af hraunum, gígum og hinu furðulega móbergi. Víða eru hellar og skútar. Mosi vex mjög víða en einnig eru inn á milli móar (með berjalyngi!) og grösugir vellir.

Einn góðan veðurdag fór fjölskyldan að ganga í  Bláfjallafólkvangi. Máni fékk að ákveða nestið: Kakó, flatkökur með hangikjöti, brauð með osti og gúrkum, kanilsnúðar (aðeins einn á mann) og að sjálfsögðu epli og suðusúkkulaði.

Snjallúrið hennar mömmu sá um að mæla allt. Þau fylgdu leiðarlýsingu sem hafði birst í einhverju blaði nýlega. Framundan var fjallaskarð og handan við það lítil tjörn. „Við verðum líklega ekki alveg ein“, sagði pabbi og kímdi.

Í skarðinu virtist vera heil fjölskylda. Konan var með þykkt sjal. Einn krakkinn var að stinga sér í kollhnís. „Spennandi!“ Eftir langa göngu, nokkrar pásur og þó nokkrar myndatökur komust þau loks í skarðið.

Jú, þessi fjölskylda var náttúrulega frekar stórskorin og ekki jafn eðlileg og séð neðan frá veginum. Krakkinn í kollhnísnum líktist ekki krakka fyrir fimm aura og hin voru náttúrulega bara alls konar drangar. En mikið var þetta flott. Bergið var sums staðar brúnleitt en annars staðar kolsvart – og alsett röndum og alls konar mynstrum. Hér og þar uxu einhver blóm og mosi – já og fléttur. Systkinin klifruðu í klettunum og stukku niður í sandinn. Þetta var skemmtilegt. Þau höfðu ekki kynnst svona klettum í Neskaupsstað.

Þau fundu líka svolítinn hellisskúta. „Nú kannski er þetta tröllafjölskylda eftir allt saman“, sagði Sól glettin. „Náðu þau ekki heim? Það er kannski bara svo langt síðan þau urðu að steini – að þau hafa aflagast“.

Það var hvasst í skarðinu og Máni og Sól fundu vel kraftinn í vindinum. Það kviknaði á peru hjá Mána. „Vindurinn er búinn að berja á þeim í margar aldir“.

Það var gott að skríða inn í hellinn, skýla sér um stund og borða nestið. Í aldanna rás hafa Íslendingar borðað flatkökur og hangikjöt. „Kannski borðuðu tröllin hangikjöt“, sagði Máni hugsi. Rétt í því kom Sól auga á hvít bein í einu horninu. „Þetta er kindaleggur“, sagði mamma. Orð hennar studdu heldur betur við tilgátu Mána.

„En kunna tröll að lesa?“ spurði Sól stóreyg. Hún hafði komið auga á hellaristur. Þarna mátti lesa Signý + Ragnar. Nú hnussaði í pabba og hann var greinilega pirraður: „Ótrúlegt hvernig fólk gengur um…“.

Móberg - (SH).

Móberg

Ævintýralegu klettarnir í fjallaskarðinu og víðar á leið fjölskyldunnar voru úr móbergi.

Móberg verður til í gosi undir jökli þar sem gosopið er nálægt yfirborðinu þannig að kvikan nær í gegn. Eldgosinu fylgir mikill hávaði og gufusprengingar. Þegar kvikan kemur upp breytist hún í ösku sem hleðst upp við eldstöðina. Vatn gengur í samband við öskuna þannig að hún límist saman og þjappast í fast berg sem kallast móberg.

Þótt móberg sé fast berg er það auðrjúfanlegt og vindurinn getur sorfið í það ótrúlegustu myndir eins og Máni og Sól urðu vitni að.

Skoðið móberg!

  • Athugið áferðina og hvort þið sjáið korn í berginu.
  • Hvernig er bergið á litinn?
  • Hefur vindurinn mótað það?
  • Sjáið þið eitthvað líf á eða við grjótið? Hvernig?
  • Gæti móbergið ykkar verið persóna í tröllasögu?
  • Takið mynd eða málið mynd.
Skemmtilegar skíðabrekkur - (KS).

Staður fyrir fólk

Á suðvesturhluta landsins er mesta þéttbýlið. Sveitarfélögin á svæðinu tóku sig saman um að stofna sérstakan Bláfjallafólkvang.

Í fólkvangi er fólki gert auðvelt að komast út í „guðsgræna náttúruna“ í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.

Lesa nánar um Bláfjallafólkvang á vef Umhverfisstofnunar.

Innan Bláfjallafólkvangs og í landi Kópavogs eru:

Skíði

Ekki má gleyma frábæru skíðasvæði í Bláfjöllum!