„Sérðu alla þrestina?“ Systkinin voru í tveggja manna fótbolta á vellinum í Fossvogsdal. Máni lét ekki á neinu bera, þekkti klæki systur sinnar, sem ætlaði að skora um leið og hann liti til himins. En þegar enginn kom boltinn, fuglatístið gekk fram úr hófi og Sól var næstum farin úr hálsliðnum leit Máni upp. „Vá, þetta var ekkert smá!“ „Komum,“ sagði Sól, „við skulum reyna að sjá hvert þeir eru að fara.“ Kannski eru þeir að halda upp á eitthvað hugsaði Máni: „Þröstur Þrastarson er fimmtugur í dag! Hann heldur veislu í Kópavoginum á milli kl. 18 og 20.“ Þau hentust af stað.

Í skóginum höfðu hundruð þrasta safnast saman, ef ekki fleiri. Þarna var líka annar fugl sem þau þekktu ekki frá Neskaupsstað. Hann hafði hátt.

Stari og fuglarnir í skóginum

Stari er nýlegur landnemi á Íslandi og hefur breiðst út um landið á undanförnum áratugum. Hann sækir í þéttbýli. Stari er skyldur hrafni og reyndar líka kráku og hann er góð eftirherma.

Oft gerir starinn sér hreiður utan á húsum, þar sem hann finnur sillu eða holrými. Hann notar gjarnan sama hreiðrið ár eftir ár. Fuglum fylgir fló. Á haustin verpa flærnar eggjum sem verða eftir í hreiðrinu. Úr þeim skríða lirfur sem aftur breytast í flær næsta vor. Flærnar þurfa að fá næringu með því að sjúga blóð og leggjast á starann þegar hann kemur aftur. Sumum er illa við stara og loka fyrir hreiðrið. Þá eru góð ráð dýr fyrir flærnar. Beinast liggur við að sækja inn í húsið og bíta íbúana.

  • Hlustið á fjölbreytt hljóð starans.
  • Setjið brauðmola á grasflöt eða stétt og athugið hvort fuglar komi til að gæða sér á þeim? (Þessa rannsókn gerðu Hans og Gréta ekki í sínum skóla.) Ef það koma fuglar virðist ykkur þá sem þeir rífist um ætið? Hvernig kemur það fram? Hvaða tegundir sjáið þið?

Svartþröstur og glókollur eru einnig nýir landnemar á Íslandi. Svartþrösturinn er orðinn algengur á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru spörfuglar og sækja í skóg.

Stari - (JBH).
Útbreiðsla stara - (Fuglavefurinn).
Skógarþröstur - (JBH).

Í skógi er líklegt að sjá: músarrindil, skógarþröst, auðnutittling, stara, svartþröst, glókoll og mögulega einhverja flækinga.

Ég sá einu sinni krossnef í skógræktinni. Sá var skrýtinn!

Fuglar í hópum

Utan varptíma safnast sumir fuglar saman þegar tekur að rökkva og hópast á einn stað þar sem þeir nátta sig. Þeir virðast æstir og skríkja hátt. Þegar þeir eru komnir í náttstað halda þeir skríkinu áfram um stund en koma sér svo í ró. Venjulega er náttstaðurinn í skjóli og fuglarnir halda sig stundum það þétt saman að þeir hita hver öðrum. Þeir geta skipst á upplýsingum um góða fæðustaði. Fuglarnir skynja öryggi, enda venjulega einhver með opin augun.

Þetta er stórmerkilegt!

Í gegnum tíðina hafa starar og þrestir safnast í skógræktina í Fossvogi. Venjulega líða ekki meira en fimmtán mínútur frá því að síðustu fuglarnir koma, þangað til myrkrið hefur lagst yfir. Fuglarnir eiga það til að sveima um stund yfir staðnum þegar þeir safnast saman. Það er tilkomumikil sjón. Fuglarnir koma gjarnan 10-50 saman til náttstaðarins úr öllum áttum. Þegar fuglar safnast sama á þennan hátt yfir nóttina er talað um dagfar. 

Á Fuglavefnum er frekari fróðleikur um hópamyndun fugla.

Hinir félagslyndu auðnutittlingar eru í hópum allan daginn! - (SH).

Þótt skógræktin í Fossvogi sé góður staður fyrir fuglana að safnast á, eiga þeir það til að breyta til. Þannig nýttu þeir á tímabili trjálund á Kópavogstúni. Einnig hafa þeir safnast saman í bílageymslu við Smáralind – já og á gámasvæði við Sundahöfn.

  • Þið ættuð að fylgjast með fuglahópum, einkum þegar fer að rökkva og sjá hvert þeir stefna.
  • Ef þið finnið virkan náttstað er gaman að koma sér þar fyrir og fylgjast með þegar þeir koma.
  • Hvað eru fuglarnir um það bil margir?
  • Fylgist með hvernig þeir koma sér í ró.
  • Sjáið þið fleiri tegundir fugla?

Tré og Meltunga

Í Fossvogsdal eru mörg tré. Þau elstu tengjast skógræktarstöð og gömlum sumarbústaðalöndum, sem þar voru áður fyrr.

Gaman er að heimsækja Trjásafnið í Meltungu, austast í Fossvogsdal. Þar eru yfir 1100 tegundir af trjám og runnum! Þar er ýmislegt rannsakað og skoðað  hvernig ólík tré og runnar þrífast við íslenskar aðstæður. Þar er sérstakur aldingarður, sígrænn garður og rósagarður. Lesa nánar um Trjásafnið í Meltungu.

Í Meltungu var landið bæði grýtt og blautt þar til ábúendur settust þar að og hófu sveitabúskap. Búskapur var í Meltungu á árunum 1938-1972.

Víða voru grafnir skurðir í Fossvogsdal til þess að þurrka landið. Lesa um skurði.

Fossvogslækur

Manngerð tjörn, um hana rennur Fossvogslækur - (SH).

Í Fossvogslæk eru hornsíli. Sama má segja um Kópavogslæk (sjá umfjöllun).

Þar eru líka oft endur, einkum stokkendur.

Fossvogslækur - (SH).