Kankvís landselur! - (JÓH).

Vonandi sjáið þið einhvern tímann raunverulega lifandi seli í Kópavogi, eða annars staðar. Hér fyrir neðan eru spurningar sem hjálpa ykkur að skoða þá vel og fylgjast með þeim.

SIÐAREGLUR VIÐ SELASKOÐUN

Verndum selina í náttúrunni, það gerum við með því að:

  • virða 100 metra fjarlægðartakmarkanir við seli og alls ekki snerta þá
  • hreyfa okkur rólega og hafa lágt – köstum aldrei steinum eða öðru í átt að selunum
  • færa okkur frá ef selirnir sýna merki um truflun
  • nálgast aldrei kópa sem virðast einmana – urtan er nálæg
  • nota ekki dróna því selir eru hræddir við þá.

(Byggt á reglum frá Selasetri Íslands.)

Flakkari

Í október 2014 þvældist kampselur til okkar í Kópavogi. Hér er mynd af honum. Hann lítur út fyrir að vera svolítið þreyttur. Það sem einkennir kampsel eru löng veiðihár. Ekki er vitað til að kampselir kæpi við Ísland, en þeir koma hingað stundum að vetrarlagi. Aðalheimkynnin eru í Norður-Íshafi.

Kampselur - (Náttúrufræðistofa Kópavogs).

Þá urðu selavinir kampakátir!

kampar = veiðihár (eða skegg)

Á vettvangi

Fylgist vel með sel sem er úti í sjó eða upp á landi. Eftirfarandi spurningar hjálpa ykkur að gera það markvisst.

  • Hvað er hann að gera?

  • Sér selurinn eða heyrir í ykkur? Hvernig vitið þið það? Prófið að spila fyrir hann á hljóðfæri, t.d. flautu.

  • Sjáið þið hann éta? Hvað ætli selir éti?

  • Flestum finnst selir fallegir. Hvað er fallegt við þá? Hvernig eru þeir á litinn?

  • Eru selir með hendur eða fætur?
  • Líklega sjáið þið selinn fara í kaf. Takið tímann hvað hann er lengi og hversu oft hann fer í kaf. Hugsanlega mætti finna meðaltímann. Gerir hann eitthvað annað?

  • Hvað ætli selir sjái neðansjávar?

  • Sjáið þið seli uppi í fjörunni? Lýsið hreyfingum þeirra eða hermið eftir þeim.

  • Ef þið sjáið fleiri en einn sel, takið þið þá eftir einhverjum samskiptum þeirra á milli?

  • Getið þið greint hvort um er að ræða brimla, urtur eða kópa?