Einn góðan veðurdag fengu Sól og Máni hjólin sín. Þau höfðu orðið eftir í bílskúrnum hans Hallsteins. Það var frábært að komast á hjólin á ný. Þetta voru mikið notuð alvöru fjallahjól. „Förum hérna upp“, sagði Sól. Máni tók vel í það. Þau þurftu verulega að skipta niður í léttan gír. „Við erum að fara upp á einhverja heiði“, sagði Sól um leið og hún leit á götuheitið: „Digranesheiði“. Upp komust þau, móð og másandi. Þau lituðust um. „Vá, sérðu hlaðna vegginn? Kannski finnum við köngulóarvef.“ Máni og Sól höfðu sérstakan áhuga á köngulóm. Þau höfðu stundum haft þær sem eins konar gæludýr, sett þær í kassa og veitt flugur handa þeim. Einu sinni varð Máni vitni að því þegar könguló drap flugu. Þeirri sýn gleymir hann ekki. Á einu andartaki hvarf lífsandinn úr sprækri flugunni og Máni varð hálfmiður sín það sem eftir lifði dags. Hann hugsaði um dauðann öðruvísi en hann hafði nokkru sinni gert fyrr. „Jú, hérna er vefur“, kallaði Sól. Köngulóin var grafkyrr í miðjum vefnum. Hann var stór og sólin glampaði á hann. „Þær eru ekkert venjulega klárar,“ sagði Máni heillaður.

Hafið þið séð könguló í köngulóarvef?
Þær gætu verið að spinna, veiða flugu, pakka inn flugu, éta flugu, gera við vefinn, bíða eða hugsanlega dansa.

Safnið og skoðið í víðsjá eða með stækkunargleri alls konar pöddur og orma á yfirborði og í jarðvegi. Notið sogflösku, fallgildru, spaða eða fiðrildaháf við veiðarnar. (Sjá lista yfir áhöld.)

Hvalbak og pússað grjót - (SH).
  1. Búið til líkan sem á að sýna hvernig hvalbök verða til.
  2. Finnið dæmi um jökulrákir og hvalbök á Víghólum.

Merki jökuls

Á Víghólum eru menjar ísaldarjökulsins kalda og þunga eins og víðar í landi Kópavogs. Grjótið verður slétt, eins og það hafi verið pússað. Talað er um klappir.

Sums staðar má sjá jökulrákir. Þær myndast í bergi þegar jökull skríður yfir það. Jökullinn ber með sér urð og grjót og skrapar með því undirlagið. Jafnvel harðir klettar gefa eftir.

Hvalbak – (Wikimedia Commons).

Jökulmáðar klappir, eins og á myndinni, eru kallaðar hvalbök. Þau eru þannig að hliðin sem snéri á móti skriðstefnu jökulsins, þar sem jökullinn mæddi mest á, er fremur slétt og aflíðandi. Hin hliðin er hins vegar stöllótt og hrjúf, enda hefur jökullinn náð að hrifsa hluta úr berginu þeim megin.

Þetta er eins og hvalur á sundi!

Merkilegur staður og friðlýstur

Það er ævintýralegt að ímynda sér jökulinn fyrir tíu þúsund árum pússa grjótið sem við stöndum á.

Víghólar eru friðlýstir. Þeim má enginn spilla eða raska. Það er fyrst og fremst grjótið sem þykir merkilegt. Oft koma jarðfræðingar til að skoða það. Nú og auðvitað venjulegt fólk sem hefur áhuga á náttúrunni.

Berg líkt og það sem er á Víghólum hefur víða verið skemmt. Það hefur verið sprengt upp á húsalóðum og vegastæðum. Við getum kannski ekki verndað allt en það er mjög mikilvægt að eiga sýnishorn.

Upphaflega átti Digraneskirkja að vera á Víghólum. Það var meira að segja byrjað að grafa grunninn.

Víghólar eru hæsti punkturinn á Digraneshæð, eru í um 75 m hæð yfir sjávarmáli. Þar er hringsjá.