Bláfjöll séð frá Vatnsendahlíð. Vífilsfell er til vinstri á myndinni og er hærra en hin fjöllin - (SH).

Bláfjöll er heiti á fjallgarði sem er að hluta í landi Kópavogs. Hæsta fjallið í landi Kópavogs er Vífilsfell, 655 m. Sum fjöll virðast frægari en önnur. Þau eru til dæmis Vífilsfell, Esja og Keilir. Akrafjall, Skarðsheiði, Hengil og að sjálfsögðu Snæfellsjökul er líka gaman að þekkja.

Ótal fjallahringir eru á Íslandi. Þau fjöll sem sjást frá tilteknum stað mynda fjallahring. Reyndar eru sumir staðir þannig að ekki sést til neinna fjalla! Frá öðrum stöðum er gott útsýni. Í Kópavogi eru nokkrar hringsjár:

  • við Víghól,
  • í Smalaholti,
  • hjá útileikhúsinu við Grandahvarf og
  • elsta hringsjá landsins, frá 1940, er á Vífilsfelli.

Hvað er hringsjá?

Vífilsfell - (SH).
  • Horfið til fjallanna. Prófið að „ramma inn“ útsýni sem þið sjáið frá Kópavogi og þannig útbúa fallega landslagsmynd.
  • Hvaða fjöll þekkið þið?
  • Ef þið farið í fjallgöngu ættuð þið að skoða vel á korti leiðina sem þið farið og átta ykkur nákvæmlega á hvar fjallið er. Segið frá ef skólinn/bekkurinn fer á fjöll.

Máni og Sól eru miklir fjallagarpar. Þau hafa gengið á mörg fjöll fyrir austan, til dæmis á Nípu (Norðfjarðarnípu). Þau hlakka til að fara á Vífilsfell, en halda þó að það geti verið nokkuð erfitt.

Máni útbjó litla bók þar sem hann skráir allar sínar fjallaferðir. Við hvert fjall setur hann upplýsingar um hæð og eins hvar er best að fara – að minnsta kosti ef það er ekki augljóst. Þar sem Máni er mikill áhugamaður um nesti greinir hann skilmerkilega frá því líka – já og veðrinu. Þess skal getið að alltaf er epli með í för og suðusúkkulaði. Fremst í bókina setti Máni ljóðið Fjallgöngu eftir skáldið Tómas Guðmundsson.

Sól setur fjallamyndir á Instagram.

Leiðbeiningar um fjallaferðir og útivist má m.a. finna á vefsíðu Ferðafélags barnanna.

Hjálpumst að við að setja upp lista yfir heppileg fjöll fyrir skólahópa:

SENDA PÓST!