Trjálundir og lerkitréð einstaka

Votlendi hefur verið þurrkað upp í Kópavogsdal og umhverfið minnir meira á garð en villta náttúru. Hjóla- og göngustígar liggja um dalinn og þar eru leik- og íþróttasvæði. Á nokkrum stöðum eru gróskumiklir gamlir trjáreitir frá þeim tíma er í dalnum voru sumarbústaðir og matjurtagarðar. Í nánd við Digraneskirkju eru til dæmis myndarlegir lundir.

Austarlega í Kópavogsdal (við Digranesveg) er sérstakt lerkitré sem var útnefnt tré ársins árið 2005 af Skógræktarfélagi Íslands. Því var plantað við sumarbústað í kringum árið 1936 og hefur vaxið vel og fallega á þeim langa tíma. Grein um lerkitréð og útnefninguna í Skógræktarritinu.

Tré ársins 2005 - (Kópavogsbær).
Kópavogslækur á köldum vetrardegi - (SH).

Hornsíli

Það er gaman að veiða hornsíli, koma þeim fyrir í fiskabúri og fylgjast með þeim. Það verður að sjá til þess að þeim líði vel í búrinu, þau þurfa bæði súrefni og fæði.

    Hornsíli – (JBH).
  1. Eru sílin öll eins?
  2. Hvernig hreyfa þau sig?
  3. Hvar halda þau sig í vatninu?
  4. Hvernig anda þau?
  5. Loka þau augunum?
  6. Af hverju skyldu hornsíli heita hornsíli?

>> Hornsíli – bók. 2010. Námsgagnastofnun.

Þegar þið hafið athugað sílin nóg skuluð þið skila þeim aftur þangað sem þau voru veidd.

Kópavogslækur

Vatnið í Kópavogslæk rennur sinn veg og meðfram honum þrífast sums staðar villtar tegundir plantna, t.d. hófsóley, engjarós og hrafnaklukka. Kópavogslækur var þó mun meiri áður fyrr. Þá var þar líka talsverður fiskur.

Rebekka Ísaksdóttir, fæddist 1912 og bjó á bænum Fífuhvammi. Sem unglingur hafði hún veg og vanda af silungsveiðum í Kópavogslæk:

Rebekka sagðist hafa komist upp á lag með að festa hendur á urriðanum þannig að það brást varla að hún næði þeim. Ein aðferð sem hún notaði ásamt Guðmundi bróður sínum var sú að skríða á maganum varlega að árbakkanum, þar sem hún vissi að urriðar lægju við. Þegar hún var búin að skorða sig og komin í viðbragðsstöðu, með höfuð og axlir slútandi yfir lækinn, greip hún með eldingarhraða utan um valinn fisk með aðra hendi í tálknaopum og hina við gotrauf. Með urriðann í báðum höndum gat hún ekki skriðið til baka án þess að sleppa bráðinni. Þá kemur Guðmundur við sögu og hann tekur í fætur Rebekku og dregur hana til sín. Má segja að þetta sér afar óvenjuleg veiðiaðferð og ef til vill einstök.

Þó að lítið sé nú um silung í læknum sjást þar aðrir fiskar. Áll slæðist þangað og talsvert er um hornsíli, einkum neðan til í læknum. Þar hefur líka veiðst flundra. Frá því er sagt á vef Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Algengt er að sjá endur á Kópavogslæk.

Vatnavextir

Kópavogslækur varð mikill að vöxtum áður fyrr og hættulegur. Hér er meðal annars sagt frá börnunum frá Hvammkoti.

M: Af hverju eru hornsíli með horn?
S: Þeim fer svo illa að vera með rúnnstykki!

Við andapollinn - (SH).

Kópavogstjörn

Nálægt ósi Kópavogslæks er manngerð tjörn. Þangað sækja ýmsir fuglar. Stokkönd og grágæs eru mest áberandi auk sílamáfs á sumrin. Þessir fuglar fúlsa ekki við brauði, jafnvel gömlu brauði! Ýmsir vaðfuglar koma líka á tjörnina og finna sér æti, einkum skordýralirfur. Hettumáfar og stormmáfur baða sig þar eða fá sér vatnssopa.

Karlkynsendur kallast steggir og kvenkynsendur kollur.

Pælt í fuglum

  1. Flettið þessum fuglategundum upp á fuglavefnum og sjáið hvernig þær líta út og gluggið í fróðleikinn.

  2. Skoðið útlitsmun stokkanda eftir kynjum. (Það fer eftir árstíma hversu flottir steggirnir eru. Þeir punta sig mikið og verða mjög skrautlegir þegar þeir biðla til kollanna.)
  3. Hvað eru margir steggir á pollinum og hvað eru margar kollur. Safnið þessum upplýsingum reglulega og skráið í töflu. Skráið veðrið á sama tíma. Segja tölurnar ykkur eitthvað?

  4. Það er gaman að fylgjast með þegar fuglarnir para sig. Reynið að sjá það gerast. Takið þá vel eftir hvernig fuglarnir fara að. Biðlun er mjög áberandi hjá öndum.

Skýringarmynd af jökulgarði - (GK)

Jökulgarður

Jöklar bera með sér og skilja eftir sig möl og grjót. Ef skriðjökull er hvorki að stækka né hopa sleppir hann öllum framburðinum á sama stað. Þar myndast því grjóthrúgur eða -garðar sem nefndir eru jökulgarðar. Ísaldarjökullinn skyldi eftir sig jökulgarð sem er sýnilegur í Kópavogi – að vísu er hann grasi gróinn (kemur ekki á óvart eftir allan þennan tíma!) og fremur stuttur. Þinghóll er hluti af þessum jökulgarði.

Þinghóll er fremur þekktur fyrir söguna en náttúruna og um hana má lesa hér.

Virðið fyrir ykkur hvernig er umhorfs við Þinghól og reynið að staðsetja jökulgarðinn.