Þurrðardagur var 28. júlí 2022.
Hvenær ætli hann verði á næstu árum?

Því miður ganga jarðarbúar á auðlindir Jarðar. Við það rýrna þær og komandi kynslóðir og aðrar lífverur hafa ekki sömu möguleika og við höfum til að njóta þeirra.

Tala mætti um þurrðardag þegar árleg framleiðsla Jarðarinnar gengur til þurrðar. Þá er það klárað sem hefði þurft að endast allt árið! Eftir þurrðardaginn byrjum við að aféta aðra; komandi kynslóðir og aðrar lífverur.  Árið 2021 var neyslan svo mikil að það hefði þurft mun stærri hnött en Jörðina til að standa undir henni.

Mannkynið gæti haft nóg ef gætilega væri farið með auðlindirnar og þeim ekki sóað. Þess má geta að þriðjungur af framleiddum mat í heiminum eyðileggst eða er hent. Alvarleg sóun er sömuleiðis á textíl, plasti og svo mörgu, mörgu öðru….

Með samstilltu átaki væri hægt að laga þetta.

Myndasaga eftir Halldór Baldursson - birtist í Fréttablaðinu 3. febrúar 2023

Sjálfbærni

Sjálfbærni og sjálfbær þróun getur hjálpað okkur út úr þessum hremmingum. Þegar auðlind er nýtt á sjálfbæran hátt rýrnar hún EKKI.

Markmið sjálfbærni er að fólk uppfylli þarfir sínar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að gera slíkt hið sama.

Sjálfbærni tekur ekki einungis til náttúrugæða, heldur einnig til efnahags og þess hvernig lifað er í samfélagi við annað fólk.

Vistspor

Vistspor er mælikvarði á hve mikið af gæðum Jarðar fólk nýtir og hve miklum úrgangi og mengun það skilar frá sér. Því meiri neysla, þeim mun stærra er vistsporið.

Rætt er um hugtökin vistspor og kolefnisspor (stundum nefnt sótspor) á Vísindavefnum.

  • Hvað felst í sóun? Nefnið fjölbreytt dæmi.

  • Athugið hvenær þurrðardagar (overshoot day / þolmörk Jarðar) hafa verið á undanförnum árum.

Það er ólíkt eftir þjóðum hversu mikil neyslan er. Sumar þjóðir ganga mjög á forða Jarðar. Því miður er vistspor Íslendinga mjög stórt.

  • Safnið hugmyndum og skráið leiðir til að draga úr sóun og seinka þurrðardeginum. Setjið einhverjar fram myndrænt og sendið!

Manstu eftir Laugu sem þvær plastpoka og hengir þá upp á snúru?