Mamma þeirra Mána og Sólar hafði yndi af tónlist. Það höfðu systkinin reyndar líka. Máni var að læra á blokkflautu og Sól söng mikið. Hún ætlaði að athuga með að komast í kór. Þau fóru oft í Salinn. Einu sinni langaði krakkana ekki með á tónleika og fóru þá að kynna sér umhverfið í staðinn.

„Ég er nú ekki frá því að þetta sé svolítið merkilegt“, muldraði Máni, sem enn var með heimþrá til Neskaupstaðar. Sól var þotin, strax komin í hvarf bak við einhvern grjóthnullunginn. „Hó!“ Aha – þarna sást í rauðan lubba. Þarna var hún þá. Máni hljóp, en þar var engin Sól. Máni gáði betur. „Hó!“ Merkið kom úr allt annarri átt. Máni var hissa. Hann þaut af stað og fann systur sína að þessu sinni. Þetta var merkilegt: Hún var með húfuna á höfðinu.

„Sjáðu hvað steinarnir eru flottir“, sagði Sól. Máni tók undir það. Það var engu líkara en þeim hafi verið sturtað hérna. Máni leit íbygginn til himins. „Kannski er þetta splundraður loftsteinn.“ „Nei, það getur ekki verið, þá væru steinarnir ekki svona sléttir“, sagði Sól. „Jú, kannski. Það gæti hafa rignt rosalega mikið á brotin eftir að hann lenti hérna.“ Máni setti upp spekingssvip: „Dropinn holar steininn.“

Tónlistin frá Salnum barst út. Þetta var nýtt tónverk, með óskaplegum látum og drunum. Kannski átti þessi tónlist að túlka loftstein sem splundrast. Hver veit?

Ætli Öskjuhlíð hafi líka verið sker?

Ég las að perlur verði til innan í skeljum. Kannski hefur einni stórri skolað á land í Öskjuhlíð!

Hvernig sjáum við að hnullungarnir á Borgarholtinu hafi lent í brimi og sjógangi? Kannski var Máni ekki svo fjarri lagi þegar hann talaði um að dropinn holaði steininn.

Hugsið til ísaldarjökulsins sem lá eins og farg á landinu og ýtti því niður. Þegar jökullinn hörfaði tók það landið langan tíma að rísa á ný. Því náði sjórinn langt upp á land. Borgarholtið rétt kíkti upp úr sjónum.

Sjórinn lamdi á grjótinu og skolaði burtu sandi og smásteinum. Stóru og þungu hnullungarnir sátu eftir. Smátt og smátt fór landið að rísa og nú eru Borgir fjörutíu metrum yfir sjávarmáli.

Þegar jökull leggst ofan á jarðskorpuna gefur hún eftir og sekkur líkt og korkur á vatni. Þegar jökullinn hverfur rís jarðskorpan smám saman á ný.

Samsetning Jarðar – (Stjörnufræðivefurinn)

Myndin útskýrir hvað er innan í jörðinni.  Jarðskorpan flýtur á möttli sem er seigur og hálffljótandi. Innst er kjarni. Innst er hann úr föstu efni.

Jörðin minnir á egg, með rauðu í miðjunni (kjarna), eggjahvítu (möttul) og yst eggjaskurn (jarðskorpu).

Steindepill

Mána leið svolítið skringilega í þessu grjóti. Hann hafði líklega lesið of margar álfasögur. Honum dauðbrá þegar honum heyrðist einhver vera að glamra með steina ekki langt undan. Honum létti þegar hann sá hvað olli.

Lítill fugl sækir í grýtt land. Hann er kvikur, flýgur lágt og tyllir sér með rykkjum og hneigingum og sveiflar vængjum og stéli. Hann er oft einn á ferð, en stundum eru þeir fáeinir saman. Í honum heyrast hljóð eins og skellt sé saman steinvölum.

Sumum finnst eins og hann hafi sett upp grímu. Hann er kannski svolítill leikari, gefur frá sér þessi skrýtnu hljóð og hreyfir sig sérkennilega. Vonandi rekist þið á steindepil einhvern tíma. Fylgist þá vel með honum og vitið hvort það er ekki næstum eins gaman og að fara í leikhús.

Áður fyrr voru steindeplar mun algengari í Kópavogi. Byggð og umferð hefur styggt þá.

Steindepill, líka kallaður steinklappa - (JBH).
  1. Hvað má gera til að koma í veg fyrir að steindeplum fækki meira í Kópavogi?
  2. Steindepill er farfugl. Lesið um hann á fuglavefnum. Hvar eru vetrarheimkynni hans? Hlustið á hljóð hans. Skellið saman steinvölum og athugið hversu lík hljóðin eru.

Gróður

Beitilyng blómstrar seint - (SH).
Krækiber á krækilyngi - (SH).
Kornsúra - blóm og aldin - (SH).
Kuðulmosi - (Wikimedia Commons).

Í Borgarholti er fjölbreyttur gróður. Um fjórðung íslenskra blómplantna er þar að finna og margar tegundir mosa gróa þar. Líklega endurspeglar gróðurinn í Borgarholti upprunalegan gróður á svæðinu. Tegund mosa, kuðulmosi, fannst fyrst hér á landi í Borgum.

Á steinunum sjálfum er að finna fléttur. Þær eru sérkennilegar lífverur.

Fléttur á steini og mosi við steininn - (SH).
  1. Farið um Borgarholt og skoðið gróðurinn. Hvað vekur athygli ykkar? Sjáið þið mosa? Sjáið þið grös? Sjáið þið plöntur sem blómstra? Vex gróður á steinunum?

  2. Veljið ykkur eina plöntu og teiknið hana eða takið af henni mynd. Lesið um hana í plöntuhandbók eða á netinu (Plöntuvefurinn / Flóra Íslands). Merkið inn á  myndina (stöngul, laufblöð, blóm, frævu, fræfla, fræ) eftir því sem við á. Ef þið myndið plöntuna getið þið stækkað myndina og kannski séð hana betur en með berum augum.

  3. Fjölbreytni planta er mikil og nota má mörg og skrýtin orð til að lýsa þeim. Í handbókum og á Plöntuvefnum sjáið þið nokkur! Hvaða atriði gefa plöntum útlit?

Þið getið að sjálfsögðu athugað gróður hvar sem er og kannski borið saman mismunandi staði.

Friðlýst svæði

„Mér finnst þessir klettar svolítið ævintýralegir“, sagði Sól um leið og hún vippaði sér upp á einn. „Á ég að segja þér hvað gerðist áðan?“ spurði Máni með þunga í röddinni. Rétt í því kom gamall maður gangandi til þeirra. „Hvað eruð þið að gera krakkar?“ spurði hann um leið og hann hallaði sér fram á stafinn sinn. „Hér búa margir álfar“. Hjartað í Mána tók kipp. „… og þeim er illa við gauragang.“ Maðurinn skimaði í kringum sig eins og hann væri að leita að einhverju. „Við höfum ekkert hátt.“ „Það er gott. Hér er nefnilega mikil álfabyggð. Álfarnir fluttu sig svolítið til þegar Borgarholtsbraut var lögð. Já, þeir voru nú ekki með neinn uppsteyt álfarnir hér. Þeir eru afskaplega almennilegir. Ég hef þekkt þá síðan ég var yngri en þið og….“. Gamli maðurinn komst ekki lengra því Máni greip fram í. „Kannast þú við álfastelpu með rautt hár?“.

Borgarholt er friðað. Svæðið er sérstakt með allt þetta grjót og greinileg merki um sjávargang. Slík svæði eru ekki svo mörg á landinu. Staðsetningin í þéttbýli gefur mörgum tækifæri til að njóta þess. Það gefur líka ástæðu til að friða það sérstaklega, því í borgum og bæjum eru oft meiri framkvæmdir og mannvirkjagerð en í dreifbýli. Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar.

Það kann að hljóma undarlega en helsta ógn við svæðið eru birkitré sem hafa sáð sér þar og eiga eftir að stækka og munu skyggja á sjávarslípaða grjótið. Sumum finnst að fjarlægja eigi birkiplönturnar á þessum stað – þær eyðileggi upplifunina af því sem raunverulega er verið að friða. Öðrum finnst þær vera merki um náttúrulega framvindu og því eigi þær rétt á sér.

Á síðustu árum hafa nokkrar stafafurur skotið rótum inn á milli steinanna. Stafafura er ágeng erlend planta.

  1. Ætti að taka birkitrén og/eða stafafururnar eða leyfa þeim að vaxa. Hvað finnst ykkur?
  2. Prófið að láta hann Þránd á kortinu trítla um á Borgarholti.
  3. Vernda, eða vernduðu, álfar álfabyggðir?
Kópavogskirkja á Borgarholti og stafafura - (SH).
Flugur á holtasóley - (SH).