Sjór og land mætast við ströndina. Öldurnar koma og fara. Stundum er flóð og stundum er fjara.
Við ströndina vex gjarnan þang og þari og smádýrin eru spræk allt árið. Í fjörunni er til dæmis hægt að finna hrúðurkarla, kuðunga, skeljar, krabba, marflær, orma og krossfiska.
Margir fuglar sækja í fjöruna. Fuglar éta smádýrin.
Hafið þið fundið lyktina við ströndina?
KENNARAR / FULLORÐNIR
Flóð og fjara – hafið
Skemmtilegast er að yngstu börnin upplifi milliliðalaust mun á flóði og fjöru með því að fara niður að sjó á ólíkum tíma. Ef til vill má stinga niður priki til að merkja við hvert sjórinn nær þegar er háflóð. (Sjávarfallatafla).
Við rólegan sjó er gaman að „fleyta kerlingar“.
Þang og þari
Alls konar þang og þari vex í fjörunni. Skoðið hvað það er ólíkt á litinn og hvernig það er í laginu. Á sumu þangi eru bólur og blöðrur. Þær virka eins og sundkútar. Þari er stór og þang er minna. Þarinn vex nokkuð frá landi. Finnið hvað það er mjúkt að koma við þang og þara með fingrunum.
Smádýr
Á myndunum eru dæmi um smádýr sem lifa í fjörunni. Þau má gjarnan finna inn á milli í þanginu, undir steinum og í fjörupollum. Í handbókum og á vefnum má finna enn fleiri fjörudýr.
Getur verið skemmtilegt að búa til listaverk úr skeljabrotum, kuðungum og steinum.
Hægt væri að fara í eins konar náttúrubingó þar sem finna á ólíkar lífverur í fjörunni.
Friðlýst búsvæði
Vegna þess að ströndin við Skerjafjörð, og um leið Kópavog, er mikilvæg fyrir fugla og lífríki og eins fólkið sem vill njóta hennar hefur stór hluti hennar verið friðlýstur.