Borgir
Gaman er að leika sér í grjóthnullungunum í Borgarholti.
Fyrir þúsundum ára, var sjór allt í kringum hæðina. Hann sópaði litlum steinum í burtu en pússaði þá stóru. Það er kraftur í hafinu.
Grjótið í Álfhóli er fallegt og gaman að leika sér í því. Fyrir mjög, MJÖG löngu síðan var hér jökull sem pússaði grjótið.
Ætli álfur búi í hólnum?
Steindepli líður vel þar sem mikið er um grjót. Skoðið myndir af honum og hlustið á hljóð hans á Fuglavefnum.
KENNARAR / FULLORÐNIR
Víða er grjót
Víða í Kópavogi er grjót, klettar og klappir. Hér er sérstaklega bent á Borgir, Víghóla, Álfhól og Hádegishóla.
Sjórinn átti þátt í að skapa sérkennilegt Borgarholtið, en ísaldarjökullinn pússaði grjótið á hinum stöðunum. Á grjótinu sjást för sem eru eftir þungan jökul. Jökullinn lagðist yfir mestallt Ísland, meðal annars Kópavog. Jökullinn hafði mikil áhrif á landið sem undir honum var. – Síðasta jökulskeið var fyrir ~10.000 árum.
Álfasögur
Minnt skal á flokk þjóðsagna um álfa. Einhverjar þeirra henta yngstu börnunum.
Gunnhildur og Glói er skemmtileg álfasaga eftir Guðrúnu Helgadóttur.
Á vettvangi
- Að príla / að stökkva á milli steina – feluleikur – búleikir.
- Að velja sinn stein, fara eitthvað annað og finna hann svo aftur!
- Skoða fléttur, mosa og gróður með hjálp stækkunarglers. Hægt að skoða gróður þótt ekki sé sumar.
- Skoða stóran klett og reyna að finna allar flétturnar á honum. Merkja við með krít. Telja merkin!
- Smádýralíf getur verið auðugt innan um grjótið.
- Safna og skoða með stækkunargleri alls konar pöddur og orma á yfirborði og í jarðvegi. (Sjá lista yfir áhöld.)