Kópar!

Bærinn okkar heitir Kópavogur.

Selir, sem ekki eru orðnir fullorðnir, eru kallaðir kópar. Á myndinni sjáum við kóp með mömmu sinni. Í gamla daga var meira af selum hér.

Stöku sinnum koma selir að landi í Kópavogi. Þeir virðast forvitnir. Mikið eru þeir sætir!

Kópur þambar mjólk! – (JÓH)

Merki

Hafið þið séð þetta merki? Hvar?

Þetta er merki Kópavogsbæjar. Á því er mynd af Kópavogskirkju og kóp. Listamaðurinn vildi hafa merkið einfalt.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Selir og kópar

Koma mætti að orðunum urta og brimill (kvenkyns og karlkyns selir).

Nota tækifærið og tala um að selir séu spendýr nákvæmlega eins og við mennirnir. Fleiri spendýr (dæmi): hvalir, mýs, rottur, refir, kýr, kindur, hestar, svín, hundar og kettir.

Á vettvangi

Ef selur birtist er spennandi að fylgjast með honum. Eins má benda á að selir sjást oft á skeri í Blikastaðakró neðan Staðarhverfis í Grafarvogi. Einnig má benda á uppstoppaðan útsel (mikið flikki) á Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Spurningar sem mætti spyrja:

  • Hvað er hann að gera?

  • Sér hann ykkur? Hvernig vitið þið það?

  • Heyrir hann í ykkur?

  • Sjáið þið hann éta? Hvað ætli selir éti?

  • Hvað er fallegt við seli? Hvernig eru þeir á litinn?

  • Eru selir með hendur eða fætur?

Frekari vinna með seli:

  • Leikið seli og líkið eftir þeim.

  • Teiknið selafjölskyldu.
    – Fara fyrst yfir útlitsmun kynja og afkvæma.

  • Búið til lag sem á að laða seli nær landi.
    – Með eða án söngtexta.

Merki

  • Prófið að teikna önnur dýr með því að nota aðeins fáar línur, t.d. hest, hænu, ref eða kött.

  • Prófið að teikna merki fyrir aðra bæi eða staði.

  • Merkið er eins og skjöldur í laginu. Hvað er annars skjöldur? … umræða um víkinga?

  • Kannski vilja nemendur skoða önnur byggðamerki?