Úr lofti
Ímyndið ykkur að þið hafið vængi og fljúgið mjög hátt. Þið eruð með myndavél og takið svona loftmyndir.
Þessar myndir voru allar teknar yfir Kópavogi. Sjáið þið hvað bærinn hefur stækkað mikið?
Hverfi
Hverfin í Kópavogi – (Kópavogsbær).
Þessi teikning á að sýna mismunandi hverfi í Kópavogi. Elstu hverfin eru Kársnes- og Digraneshverfið.
- Í hvaða hverfi búið þið?
- Hvað heitir gatan ykkar?
Kópavogsbærinn
Kópavogsbærinn – (SH).
Hér má sjá elsta hús Kópavogs (frá 1904). Það var á gömlum sveitabæ sem hét einmitt Kópavogur.
Þéttbýli og dreifbýli
Í Kópavogi er bæði þéttbýli og dreifbýli.
Í þéttbýlinu eru mörg hús, vegir, ljósastaurar og ræktaðir garðar.
Í dreifbýlinu er langt á milli húsa og víða er land sem mennirnir hafa lítið eða ekki breytt. Í landi Kópavogs eru til dæmis vötn, ár, móar og fjöll.
KENNARAR / FULLORÐNIR
Loftmyndirnar
Segja frá því að myndirnar voru í alvöru teknar úr flugvélum eða úr gervitungli.
Að þekkja nánasta umhverfi
Viðeigandi væri að ræða sérstaklega um hverfið þar sem skólinn er. Er það gróið og gamalt eða nýtt? Hvað er sérstakt við hverfið? Eru þar ákveðin kennileiti sem gott er að þekkja?
Að vinna með áttirnar (án þess endilega að nefna suður, norður, austur og vestur). Sem dæmi mætti teikna mynd af skólanum úr lofti og setja inn það helsta í nágrenninu. Pæla verður í afstöðu hlutanna.
Í stað þess að teikna mætti líka nota kubba, sand í sandkassa eða annað áþreifanlegt.
Kópavogsbærinn
Á vef Minjastofnunar geta kennarar lesið um gamla Kópavogsbæinn. Vel við hæfi að fara í ferð til að skoða elsta hús Kópavogs. Um leið mætti vinna með búskap í Kópavogi áður fyrr.
Þéttbýli og dreifbýli
Útbúa þéttbýli í einum sandkassa og dreifbýli í hinum (eða búa til líkan úr öðru efni, t.d. leir). Mætti einnig hugsa sér tvær myndir (t.d. teikningar eða klippimyndir) sem sýna þéttbýli og dreifbýli. Ræða fyrst hvað getur átt heima á hvorri mynd. Hópaverkefni.