Þá er sumarið komið! Vorið hefur verið óvenjulega hlýtt samkvæmt Veðurstofunni. Um helgina var svo gott veður að fjöldi fólks dreif sig út. Mikið var að gera í sundi, í görðum, við ströndina, jafnvel úti í sjó og sumir fóru upp á fjall. Fóruð þið út í góða veðrið?
Nú þegar sumarið gengur í garð er mikið um að vera í náttúrunni eins og sagt var frá í síðustu færslu. Farfuglarnir koma einn af öðrum og þeim fylgir söngur sem við heyrum ekki á veturna. Fuglapör makast og fuglarnir gera sér hreiður. Síðan kemur að varpi, klaki (þegar ungar skríða úr eggjum) og uppeldi unga. Eins og undanfarin ár má fylgjast með búskap hrafna í beinni útsendingu – en þeir eiga sér laup (=hreiður) utan á húsi BYKÓ* á Selfossi. FYLGJAST MEÐ.
Í sveitinni eru líka tíðindi því nú stendur sauðburður sem hæst: „léttfættu lömbin skoppa – um laut og völl“. Það er gaman að fylgjast með lömbunum og mikið eru þau krúttleg. Hér er frétt sem sýnir svartan hrút koma í heiminn á bænum Ártúni á Rangárvöllum.
*BYKÓ er skammstöfun fyrir Byggingarvöruverslun Kópavogs!