Um þessar mundir fer sólinni að takast að hlýja okkur og við förum kannski út á peysunni. Það geta reyndar líka komið vetrarlegir dagar með éljagangi en ólíklegt er að snjór sitji lengi úr þessu – að minnsta kosti ekki í Kópavogi. Það er farið að vora!
Víða má sjá merki vorsins í náttúrunni:
Fuglarnir vita að bráðum þurfi þeir að huga að varpi. Við sjáum þá finna sér maka (ef þeir eru ekki þegar paraðir), makast og gæta síns óðals. Varp og hreiðurgerð hefst missnemma eftir tegundum – en hrafninn er fyrstur. Og fuglarnir þurfa að koma sér á varpstöðvarnar. Sjófuglar setjast í björgin. Farfuglar koma einn af öðrum til landsins. Búast má við fréttum af komu lóunnar á hverri stundu!
Gróðurinn tekur við sér. Fyrst um sinn eru það aðallega útlendar garðplöntur, til dæmis þær sem vaxa upp af lauk. Útlend tré geta líka farið að laufgast ef veðrið er gott. Fíflar eru gjarnan fljótir til og brosa eins og sólin skíni hún á þá í skjóli. Annars er vetrarblóm sú jurt meðal villtra blóma sem fangar venjulega athygli okkar fyrst, en vetrarblóm blómstrar í apríl.
Í fjörunni er iðandi líf árið um kring. Birta og hlýja vorsins hefur þó mikil áhrif í sjónum og lífríkið tekur kipp. Birtan veldur auknum vexti þörunga, einkum svifþörunga og það skilar sér í vistkerfi hafsins almennt. Þörungarnir eru grundvöllur lífsins í hafinu.
Smádýrin velja ýmsar leiðir til að lifa veturinn af. Þá fer ekki mikið fyrir þeim, en nú fara þau að láta sjá sig. Það er oft óvænt ánægja!
Hér eru nokkur dæmi um merki vorsins:
Nú spretta laukar
Krókusar eru fjölærar plöntur sem vaxa upp af lauk. Hann geymir forðanæringu plöntunnar yfir veturinn. Krókusar lifna við mjög snemma á vorin. Blómin snúa að sólinni yfir daginn, hreyfast sem sé, en lokast svo á nóttunni.
Krókus er erlend planta sem á uppruna í Vestur-Asíu og umhverfis Miðjarðarhaf. Hún er kölluð dverglilja á íslensku.
Óvænt fluga
Flugur eru skordýr en skordýr lifa venjulega veturinn af sem egg, lirfur eða púpur. Það fer eftir tegundum og búsvæði. Flugurnar sjálfar lifa oftast í stuttan tíma og þeirra markmið er fyrst og fremst að finna maka og eignast afkvæmi. (Flugan á myndinni birtist í fyrradag og er líklega kirkjubokka.)
Fyrsta gæsin komin
Vísindamenn hafa fylgst með ferðum gæsa í þó nokkur ár með því að festa á þær tæki sem segir til um staðsetningu þeirra. Í gegnum þessar rannsóknir höfum við lært margt nýtt um ferðir gæsanna og dvalarstaði.
Fyrsta grágæsin sem er með staðsetningartæki kom til landsins á laugardaginn var, 22. mars. Hún hafði dvalið á Orkneyjum í vetur. Ferðalagið til Íslands tók 34 tíma með hvíldum. Þegar hún kom til landsins staldraði hún við í Þykkvabæ en hélt síðan í átt til Breiðafjarðar, en þar var hún einmitt í fyrrasumar þegar festur var á hana búnaðurinn. – Margar merktu gæsirnar hafa fengið nafn, en þessi umrædda gæs heitir bara 531.
Grúska í gögnum um ferðir gæsa. Mælt er með að lesa leiðbeiningarnar – hjálpist að!
Athugið að megnið af grágæsum Íslands eru farfuglar en sumar halda sig þó hér allt árið.
- Hvenær kemur lóan í ár? Fylgist með fréttum.
- Skoðið krókusa. Hvernig eru þeir á litinn? Hvar vaxa þeir? Snúa þeir á móti sól?
- Leitið að smádýrum í jarðveginum. Finnið þið eitthvað kvikt? Ef svo er, hvernig eru aðstæður þar – og hvað funduð þið?
- Skoðið ferðir grágæsanna. Hvar eru hinar gæsirnar sem bera staðsetningartæki staddar?
- HAFIÐ AUGUN OG EYRUN OPIN FYRIR ÖLLU SEM ER AÐ GERAST OG TENGJA MÁ VIÐ VORIÐ!
Við garðstíginn (brot)
Vor:
Dvergliljan þurrkar af sér tárin
lyftir bláum kolli
sléttar úr pilsinu græna
hneigir sig og brosir
morgunblærinn hefur boðið henni í dans.
Vilborg Dagbjartsdóttir