Almenn færsla, Lífríki, Veður

Nú er að birta

Ekki er langt síðan var koldimmt lengi fram eftir morgni og fór að skyggja snemma í eftirmiðdaginn. Hugsið til dæmis um hvernig þetta var í kringum jólin.

Í framhaldi af vetrarsólhvörfum (~21. desember) fer sólargangurinn að lengjast en þó mjög hægt í fyrstu. Á hverjum einasta sólarhring lengist tíminn sem sólin er á lofti um einhverjar sekúndur og jafnvel nokkrar mínútur. Mest lengist sólargangurinn, frá einum degi til hins næsta, um tæpar 7 mínútur í apríllok. Eftir það fer aðeins að hægjast á, en þó heldur dagurinn áfram að lengjast alveg fram að sumarsólstöðum (~21. júní). Eftir það styttist dagurinn.

Taflan sýnir um hversu margar mínútur sólargangurinn lengist eða styttist miðað við daginn á undan. Sólin er til dæmis um þremur mínútum lengur á lofti á nýjársdag en á gamlársdag og sá merkisdagur 29. júní er þremur mínútum styttri en 28. júní! (Tölurnar eiga við um Reykjavík en eru sjálfsagt líkar því sem gildir í Kópavogi.)

Sjá skýringu í meginmáli - (Þorsteinn Sæmundsson).
Lengd sólargangs í Reykjavík í klukkustundum - (Þorsteinn Sæmundsson - SH).

Á línuritinu getið þið séð lengd sólargangs á höfuðborgarsvæðinu á mismunandi árstímum.

Á vef Veðurstofunnar má líka sjá upplýsingar um sólarganginn eins og hann er í dag.

Við getum séð áhrif birtunnar á lífríkið. Við getum jafnvel séð viðbrögð pottaplantna við aukinni dagsbirtu – nýir angar fara að vaxa eins og sjá má á sómakólfinum á myndinni.

Nýr sproti kominn í febrúar - (SH).

Amma, sem fer í sund á hverjum degi eftir vinnu, er alltaf að tala um hvað sé farið að birta.

  1. Nefnið fleiri dæmi um áhrif dagsbirtu á lífverur.
    Hefur birta áhrif á aðrar lífverur en plöntur? Hefur birtan áhrif á fólk?
  2. Skoðið línuritið sem sýnir sólarganginn yfir árið.
    Hvað er sólin um það bil lengi á lofti þegar þið eigið afmæli? Er daginn þá að lengja eða stytta?
  3. Skoðið upplýsingar um sólarganginn í Kópavogi í dag.
    Klukkan hvað er sólris=sólarupprás=sólaruppkoma?
    Klukkan hvað er sólarlag=sólsetur?
    Reiknið út hvað sólin er lengi á himni í dag.
    Veljið annan stað á Íslandi og svarið sömu spurningum fyrir þann stað.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Hér skal bent á fróðlegan vef í umsjón Þorsteins Sæmundssonar um Almanak Háskóla Íslands.

Tafla og línurit í þessari færslu eru fengin úr áhugaverðri grein sem heitir Hænufetið og hádegið, Almanak Háskólans – Þorsteinn Sæmundsson.