Almenn færsla, Lífríki, Veður

Haust og gróður

Það er ennþá sumar en það er á förum. Fyrsti vetrardagur er í október, en það er enginn dagur sem kallast haustdagurinn fyrsti!

Hvenær kemur haust? Finnst ykkur að komið sé haust?

Veður, hiti og birta einkenna hverja árstíð og hafa áhrif á lífríkið, meðal annars fólkið.

  1. Hvað gerist í náttúrunni á haustin?
    Reynið að finna raunveruleg dæmi í umhverfi ykkar. Hugsið um fleira en gróður.
  2. Hvað gerið þið á haustin, sem þið gerið ekki á öðrum tíma ársins?

Mér finnst komið haust þegar skólinn byrjar.

Horfum nú á plönturnar

Plöntur búa sig undir veturinn á ýmsa vegu. Margar leggja allt sitt í fræin og deyja síðan sjálfar. Fræin lifa af veturinn og spíra þegar aðstæður leyfa næsta vor eða sumar.

Aðrar plöntur eru með jarðstöngla, eða rætur, sem lifa af veturinn þótt plantan á yfirborðinu hverfi. Þessar plöntur mynda líka fræ en ekki endilega á hverju ári.

Fræin

Fræ eru fjölbreytt og þau dreifast eftir ólíkum leiðum:

Biðukolla - (SH).

Sum hanga í eins konar fallhlíf sem lætur þau svífa í loftinu (dæmi: biðukolla).

Fræ sem hafa hrunið úr rekli (blómi) birkis - (SH).

Önnur eru með vængi sem lætur þau fjúka í vindinum (dæmi: birkifræ).

Fjalldalafífill - (SH).

Á sumum fræjum er krókar og þau festast auðveldlega í feld dýra (eða ullarsokka) og dreifast með þeim (dæmi: fjalldalafífill).

Opnir og tómir belgir lúpínu - (SH).

Sum fræ eru inni í belgjum sem springa snögglega við réttu aðstæðurnar þannig að fræin þeytast í allar áttir (dæmi: lúpína).

Krækiber er „steinaldin“ - (SH).

Inni í berjum og ávöxtum eru fræ. Menn, fuglar og ýmis önnur dýr éta berin og ávextina. Fræin skila sér með úrganginum.

Rannsakið gróður

    1.  Sjáið þið að hann sé að sölna (=visna, rotna, brotna niður og eyðast)
    2. Takið sérstaklega eftir uppskeru og fjölbreyttri fræmyndun. Þið gætuð safnað fræjum og skoðað í víðsjá.
    3. Er mikilvægt að fræ dreifist? – hvers vegna?
    4. Takið myndir eða teiknið / málið myndir.
    5. Veljið ykkur fræ og búið til líkan af því sem er miklu stærra en fyrirmyndin.

Gaman er að hlusta á tónverkið Árstíðirnar eftir ítalska tónskáldið Vivaldi. Hér er kaflinn um haustið.

Fölnuð rós í garði - (SH).