Trén undirbúa sig fyrir veturinn um þessar mundir. Þau vissu fyrir þó nokkru síðan að von væri á honum. Styttri dagar og lengri nætur gáfu trjánum merki.
Litarefnin hætta að myndast í laufunum, fyrst brotnar blaðgrænan niður og þá taka önnur litarefni laufanna völdin. Þá birtast haustlitir.
Trén safna forða sínum á öruggan stað áður en laufin falla.
Laufblöð sitja í eins konar götum á berkinum. Þegar vetur nálgast gerist það að þessi göt gróa og lokast. Við það losnar um laufin og lítið þarf til að þau falli eða fjúki af greinunum.
(Ef við tökum laufblað af tré að sumri til, sjáum við vel „gat“ í berkinum.)
- Hvernig eru litir haustsins? Notið haustliti til að hanna útlit á peysu, símahulstri, reiðhjóli eða einhverju öðru sem ykkur dettur í hug.
- Það er gaman að þurrka og gera listaverk úr laufblöðum haustsins. Þið hafið eflaust gert það oft og alveg frá því þið voruð í leikskóla. Hugsið upp einhverja nýja leið í listsköpun ykkar. Þið megið gjarnan senda mynd.
- Skoðið vel mismunandi laufblöð og berið saman. Hvernig eru jaðrarnir? Hvernig eru þau á litinn? Hvernig er áferðin undir og ofan á? Sjáið þið æðarnar?
- Getið þið greint trén og laufblöðin til tegundar?
- Takið laufblað, sem er farið að roðna, af tré og athugið hvort þið sjáið ör eða gat í berkinum.
- Hvað verður um öll laufin sem falla á jörðina?
Hér er málverk eftir Kristján Davíðsson (1917-2013) sem heitir Haustlaufadans. Lesa nánar um verkið á Sarpi.
Kannski getið þið skoðað fleiri listaverk um haustið á Sarpi?