Almenn færsla, Umhverfismál, Veður

Loftgæði

Við heyrum oft talað um loftgæði. Þau eru mikilvæg fyrir góða heilsu og heilbrigði náttúrunnar.

SKOÐA má stöðuna frá degi til dags á vef Umhverfisstofnunar.
Tveir mælar eru í Kópavogi, við Dalsmára og í Lækjarbotnum, þar sem Waldorfskólinn er.

Það sem meðal annars dregur úr loftgæðum:

Svifryk

Í loftinu eru alls konar agnir. Minnstu agnirnar kallast svifryk. Þær eru þó misstórar og eru fínni svifryksagnirnar flestar af mannavöldum, en þær grófari eru beint frá náttúrunni, til dæmis jarðvegur, aska eða selta frá sjónum. Svifryk sem rekja má til mannsins kemur einkum frá bruna eldsneytis, iðnaði og umferð.

Áhrif á heilsu

Svifryk, einkum það fína, hefur slæm áhrif á heilsuna. Agnirnar safnast fyrir í lungunum og getur það haft slæmar afleiðingar. Lítil börn, gamalt fólk og lungnaveikir eru í sérstakri áhættu.

Samkvæmt rannsóknum Vegagerðarinnar er nagladekkjanotkun langsamlega stærsti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu.

Fylgist með loftgæðum með því að horfa í kringum ykkur og tékka á mælingunum. Athugið veðrið í leiðinni. Skráið hjá ykkur. Hvernig er veðrið þegar staðan er slæm / góð?

Eldgos

Alls konar eiturgufur stíga upp í eldgosum og í öskugosum bætist aska við. Vísindamenn fylgjast vel með stöðu mála og passa upp á að fólk fari ekki of nálægt eða á hættulegar slóðir. Þó er ekki hægt að stoppa eldgos og fólk getur fundið fyrir óþægindum vegna eldgosa, jafnvel í þó nokkurri fjarlægð.

Flugeldar

Flugeldar eru aldrei vænir fyrir umhverfið. Með því að brenna flugelda verður til mjög mikið svifryk, auk annarra hættulegra efna. Hér er mynd sem sýnir magns svifryks við Dalsmára. Sjáið hvað þetta verður rosalegt um áramótin?

Magn grófs svifryks við Dalsmára í Kópavogi - (Umhverfisstofnun).

Hvað er hægt að gera til að auka loftgæði? – Getið þið eitthvað gert, fjölskylda ykkar, skólinn, Kópavogsbær, ríkisstjórnin?

Óæskileg efni

Í miklu magni hafa eftirtalin efni slæm áhrif á andrúmsloftið og þar með heilsu og umhverfið almennt.

Köfnunardíoxíð

Upptök mengunar, sem stuðlar að myndun köfnunarefnisdíoxíðs í andrúmsloftinu, eru í iðnaði, orkuverum, frá bílaumferð og fiskiskipunum. Þegar logn er á veturna sjáum við stundum mengunarslikju yfir borginni og þá er magn köfnunarefnisdíoxíðs orðið heldur hátt.

Brennisteinsvetni

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjun. Þar er heit gufa notuð til að hita vatn og í framleiðslu rafmagns. Með gufunni kemur brennisteinsvetni sem sleppur út í andrúmsloftið. Magn þess hefur margfaldast eftir að virkjanirnar voru gangsettar. Sem betur fer er styrkurinn það lítill hér að hann er ekki hættulegur – ennþá!

Brennisteinsdíoxíð

Efnið myndast við bruna á jarðefnaeldsneyti og kemur frá iðnaði, álverum, verksmiðjum, bílaumferð, en þó einkum og mest frá íslenska skipaflotanum.

Bakgrunnurinn er svona á litinn af því þetta er ógeð!