Vetrarfrí framundan…

Nú styttist í vetrarfrí. Hvernig væri að heimsækja áhugaverða staði í Kópavogi í fríinu. Þið getið valið áfangastað hér á vefnum og lesið um hann undir STAÐIR.
Önnur hugmynd er að fara í Náttúrufræðistofuna og skoða sýninguna þar eða taka þátt í spennandi viðburðum:
Fuglateiknismiðja með Rán Flygenring
27. október kl. 11-13
Mynd- og rithöfundurinn Rán Flygenring býður fjölskyldum upp á ólíkar furðufuglateikniæfingar sem virkja ímyndunaraflið og teiknivöðvana. Þátttakendur fræðast um fugla í gegnum snarpar og skapandi stöðvaþrautir. Engrar teikni- né fuglakunnáttu er þörf til að taka þátt!
Hlynur Steinsson, líffræðingur, verður á staðnum og býður upp á fræðslu um fugla á Náttúrufræðistofu fyrir börn á öllum aldri.
Origami, kjaftagelgjur og lífljómun
28. október kl. 11-13
Kjaftagelgjur eru ófrýnilegar en heillandi skepnur! Þær tilheyra samnefndum ættbálki djúpsjávarfiska sem hafa aðlagast eilífðarmyrkri hafdjúpanna á einstakan máta. Ekki aðeins með aðlagaðri sjón, heldur eiga þær sameiginlegt að bera eins konar veiðistöng með ljósi á endanum sem gerir þeim hægara um vik við fæðuöflun. En hvaðan kemur ljósið? Lífljómun! Lífljómun er þegar lífvera framleiðir og gefur frá sér ljós.
Boðið verður upp á fræðslu um þessar mögnuðu verur og fiskarnir lúsífer og sædjöfull verða skoðaðir. Síðan fá gestir tækifæri til að búa til eigin sjálflýsandi kjaftagelgjur úr origami.