Almenn færsla, Staðir

Vappað um Borgarholtið!

Laugardaginn 1. október 2022, kl. 13 er skipulögð náttúruskoðunar- og ævintýraferð á vegum Náttúrufræðistofunnar og Menningarhúsanna í Kópavogi.

Á Borgarholti er margt að skoða. Það sem vekur eflaust fyrst athygli er allt þetta mikla grjót. Þetta er ekkert venjulegt grjót og við munum reyna að sjá fyrir okkur hvernig það er tilkomið. Nú og svo er grjótið með litskrúðugar fléttur (!) sem er náttúrulega verðugt rannsóknarefni útaf fyrir sig.

Plönturnar eru nú farnar að búa sig undir veturinn og þær lúra þarna í Borgarholtinu hljóðar á sínum stað inni á milli steinanna. Það er alltaf þess virði að íhuga plöntur, jafnvel þótt þær séu að visna og megi muna sinn fífil fegri! Í Borgarholti er mjög fjölbreyttur gróður sem endurspeglar upprunalegan gróður á Kársnesinu.

Ævintýrin á Borgarholtinu eru æði mörg. Það má segja að jarðfræðileg sagan sé stórkostlegt ævintýri. Sumir trúa að álfar og huldufólk búi í steinum og auðvitað getum við með fjörugu ímyndunarafli séð fyrir okkur mikla og þétta huldufólksbyggð í Borgarholti. Ef steinarnir gætu talað myndu þeir líka geta hvíslað að okkur einhverjum spennandi ævintýrum úr mannheimum, jafnvel ástarævintýrum.

Viðburðurinn er einkum ætlaður áhugasömum krökkum og fullorðnum ættingjum þeirra og vinum. Sólrún Harðardóttir leiðir gönguna en líffræðingar frá Náttúrufræðistofunni verða ekki langt undan.

Grjótið í Borgarholti - (SH).

Klæðið ykkur vel og farið í góða skó!