Almenn færsla, Fólk og náttúra, Lífríki

Margt sem myrkrið veit

Í myrkrinu búa ýmsar verur og sumar ekki mjög aðlaðandi. Það vita þau sem fara á stjá á hrekkjavöku. Nú styttist í þá hryllilegu hátíð!!

En fyrst gæti verið gaman að kanna ljúfari lífverur sem eru áberandi á haustin – haustfetana. Um er að ræða fiðrildi sem algengt er að sjá á upplýstum útiveggjum húsa. Þar setjast þau og halda sig kannski klukkutímum saman.

Álitið er að skordýr (fiðrildi teljast til þeirra) noti tunglið og skærar stjörnur til að vísa sér veginn og þau fljúgi beina leið í átt að þeim. Rafmagnsljós, já og bál eða logi, virka á sama hátt. Verst hvað logar geta verið heitir og hættulegir.

Fiðrildaleit…

Farið út í myrkri að kvöldi eða snemma morguns.
Fáið einhvern fullorðinn með ykkur ef þið farið út fyrir utan leyfðan útivistartíma ykkar.

Athugið hvort þið sjáið haustfeta umhverfis útiljós, til dæmis við heimahús þar sem þið þekkið íbúana, við sundlaugina, skólann, við verslanir og svo framvegis.
Haustfetinn er mjög rólegur við þessar aðstæður og auðvelt er að skoða hann með hjálp stækkunarglers.

Skoðið sérstaklega:

  • mynstur í vængjum
  • hreistur á vængjum
  • hár á köntum vængja
  • fálmara
Haustfeti - (SH).

… framhald

Hvað sjáið þið um það bil mörg fiðrildi við hvert ljós? Laða sum ljós meira að en önnur? Hvernig ljós?

Hvað náið þið að sjá mörg fiðrildi í leiðangri ykkar?

Takið myndir. Ef þið náið góðri mynd mætti gjarnan skipta þessari út! (Senda póst!)

Ef ekki væru rafmagnsljós liti öðruvísi út í Kópavogi fyrir haustfeta – og okkur. Kannski fengi tunglið þá meiri athygli?

Tunglið séð frá Jörðinni - (Frode Steen, Wikimedia Commons).