Hver vegur að heiman er vegur heim.
Þetta er tilvitnun í skáldið Snorra Hjartarson. Hvernig skiljið þið orðin hans?
Nú er sumarfríið framundan og þá fara margir í ferðalag. Ferðalög eru alls konar, stutt eða löng, á alls konar farartækjum, ef ekki gangandi. Sumir segjast meira að segja ferðast í huganum!
Þegar þið mætið aftur í skólann í ágúst verðið þið örugglega spurð hvað þið gerðuð í sumar. Kannski fáið þið verkefni þar sem þið eigið að skrifa sögu eða ritgerð um sumarið.
Það er því um að gera að safna minningum, eða rannsóknarefnum, taka margar myndir, teikna og skrá hjá sér. Þið gætuð notað stílabók eða möppu til að safna í lausum blöðum og öðru efni.
Gangi ykkur vel og hafið það gott!