Garðar minna á litlar náttúruvinjar til að njóta dags daglega. Þeir eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir. Sumir eru í kringum heimahús eða stofnanir, t.d. skóla. Aðrir eru skipulagðir sem græn svæði sveitarfélaga. Sjáið fyrir ykkur ólíka garða:
- með ræktuðum matjurtum,
- snyrtilega,
- fulla af órækt,
- stílhreina,
- með miklum gróðri og trjám,
- með pöllum og stéttum.
Hlíðargarður er ævintýralegur garður enda hannaður í anda evrópskra hallargarða! Lengi var hann notaður á 17. júní fyrir Kópavogsbúa en er orðinn of lítill til að sinna því hlutverki.
- Veljið garð, til dæmis við heimili ykkar og lýsið honum eða teiknið upp. Mynduð þið vilja skipuleggja garðinn öðruvísi, hvernig?
- Hvernig finnst ykkur skólalóðin?
- Flakkið um vefinn og skoðið hallargarða í útlöndum.
- Búið til lista yfir lífverur í garðinum eða á skólalóðinni. Veljið nokkrar til að rannsaka sérstaklega. (Munið að plöntur eru lífverur.)
- Stundum er talað um garðfugla. Gaman er að fylgjast með þeim og hugsanlega fóðra þá þegar kalt er og þannig laða þá að. Leiðbeiningar um fóðrun fugla á vef Fuglaverndar.
Hér er sagt frá nokkrum fuglavinum sem hafa komist í fréttirnar.
KENNARAR / FULLORÐNIR
Náttúruskoðun í garði
Almennt eru garðar góðir staðir til alls konar athugana á náttúru og lífríki. Einkum blasir við að skoða fugla, smádýr og gróður. Garðvinna er lærdómsrík og í gegnum hana má læra mikið til dæmis um vöxt plantna og viðgang, auk þess sem pöddur, ormar og fuglar dúkka oft óvænt upp!
Hlíðargarður
Hlíðargarður er gott viðfangsefni í tengslum við stærðfræði; mælingar, samhverfa, form og fleira.
Heimsókn í garðinn kemur andanum af stað. Nemendur geta sett sig í spor kóngafólks! Passar garðurinn fyrir Íslendinga?
Ræða landslagsarkitektúr og hvaða máli hann skiptir.
„Hlíðargarður í Kópavogi er sennilega eini íslenski almenningsgarðurinn sem með augljósum hætti sækir fyrirmyndir sínar til evrópskra hallargarða frá endurreisnar- og barrokktíma. Uppbygging hans hófst árið 1953 og árið 2002 komu landslagsarkitektarnir Finnur Kristinsson og Elísabet Guðný Tómasdóttir með tillögur að endurgerð hans. Þau sögðu Hlíðargarð vera rómantíska útgáfu af ítalska endurreisnargarðstílnum en í þeim görðum var formfesta og samhverfa, auk þess sem mikilvægt var að í þeim væri rennandi vatn og listaverk.“ (Bragi Bergsson. 2014. Almenningsgarðar í Reykjavík – skýrsla 165. Minjasafn Reykjavíkur.)