Eyktir
Staðurinn fékk ekki þetta nafn vegna þess að þar væri góður staður fyrir hádegismat. Á hádegi er sólin í hásuðri og var hún þá yfir Hádegishólum séð frá bænum Fífuhvammi. Á Hádegishólum var eyktarmark. Fólkið í Fífuhvammi þurfti því ekki nauðsynlega að eiga úr eða klukku til að vita hvernig tímanum leið, heldur gat metið það út frá stöðu sólarinnar. Þetta gat samt verið flókið þegar alskýjað var.
Í gamla daga voru þetta mikilvægar tímasetningar, eða eyktir, sem gjarnan var miðað við:
- ótta – um kl. 3 að nóttu
- miðmorgunn / rismál – um kl. 6
- dagmál – um kl. 9 að morgni
- hádegi / miðdegi – um kl. 12
- nón – um kl. 3
- miður aftann / miðaftann – um kl. 6
- náttmál – um kl. 9
- miðnætti / lágnætti – um kl. 12
Jökulrákir
Dúdúrúddúdú! Hjólin komu í gær og því best að hjóla í dag. En hvert væri best að fara? Máni og Sól fletta upp á netinu hjólastígum í Kópavogi. Öruggast að fylgja þeim hugsar Máni. Hér er slóðin á netinu > velja hjólaleiðir.
„Höfum nesti“, segir Sól. Máni tekur vel í það og þau smyrja sér samloku með glænýjum hummus og gúrku. Þau setja vatn á flösku, hjálm á hausinn og eru klár.
Mikið var gaman að þjóta af stað. Þau fóru víða og stoppuðu hér og þar. Þau ákváðu til dæmis að kynna sér kirkjugarðinn. Hann var nokkuð stór og mikið laust pláss. Sól var svolítið hugsi yfir því. Þetta er greinilega nýr kirkjugarður og margir eiga eftir að verða jarðaðir hérna. Systkinin skoðuðu legsteina og krossa og reiknuðu út hvað fólkið varð gamalt. Þau sáu líka að oft voru hjón saman. Á flestum leiðum voru enn falleg sumarblóm. „Það er sorglegt að deyja“, sagði Máni dapur.
Næsti áfangastaður voru Hádegishólar, rétt hinum megin. Þau hlupu um klappirnar og tóku gleði sína á ný. „Hmm. Hér eru merki jökulsins, greinilegar rendur í grjótinu líkt og á Víghólum.“ Þarna var líka skrýtin stytta. Hún er í anda Búddha, samkvæmt skilti á staðnum. Í efsta hluta hennar má sjá sól og mána!
Nú var komið að nestinu. Hádegismatur á Hádegishólum. Það passaði fullkomlega. Systkinin ræddu hvort Tíbetar borðuðu hummus eða hvort hummus ætti eitthvað sameiginlegt með skriðjökli. Hann smakkaðist alla vega dásamlega.
- Skoðið vel jökulrákirnar. Finnið þið líka hvalbök?
- Krítið eftir jökulrákunum og finnið út í hvaða átt þær liggja. Jökullinn skreið í sömu átt. Pírið augun og ímyndið ykkur skriðjökul á ferð.
- Til að sjá betur áferðina á grjótinu er gott að leggja stórt blað á það og lita létt yfir með hliðinni á vaxlit eða krít.
- Víða eru örnefni líkt og Hádegishólar sem gefa til kynna að þar séu eyktarmörk. Miðaftansfjall og Nónfell eru t.d. algeng örnefni víðs vegar um landið. Getið þið fundið fleiri slík örnefni? Til að grúska í þessu getið þið farið á map.is
- Getið þið fundið ykkar eigin Hádegishóla (kannski Hádegisskarð eða jafnvel Hádegishús) útfrá heimili ykkar og skóla? Athugið að sólin er ekki hæst á lofti kl. 12 heldur nokkru seinna. HÉR má sjá upplýsingar um hvenær er náttúrulegt hádegi (sólin hæst á lofti og í hásuðri).
- Þegar þið vitið hvar hásuður er – bendið þá í austur, vestur og norður!
KENNARAR / FULLORÐNIR
Í kirkjugarðinum
Í kirkjugarðinum mætti skoða ýmsar garðaplöntur. Þær eru oft stórgerðar og plöntulíffæri greinileg, s.s. fræ, fræflar, frævur, krónublöð, bikarblöð, lauf o.s.frv. Gera mætti úttekt á lögun laufblaða og finna hvað blöð af þeirri lögun kallast (sjá plöntuhandbækur).
Í kirkjugarði er auðvelt að setja upp fjölbreytt verkefni sem tengjast ýmsum námsgreinum. Velta má fyrir sér hvort betur er hirt um nýlegar grafir en þær sem eldri eru, reikna út aldur hinna látnu, skoða hvort litur blóma tengist kyni þess er liggur í gröfinni, velta fyrir sér fjölskyldum, stöðu og jafnvel atvinnu.
Nemendur gætu hugsanlega sjálfir samið verkefni þar sem viðfangsefnið er kirkjugarðurinn.
Breiðholtsgrágrýti
Bergið í klöppunum tilheyrir Breiðholtsgrágrýti en það liggur ofan á Reykjavíkurgrágrýtinu. Því er um að ræða yngra berg en almennt má sjá í Kópavogi.
Hádegishólar eru vissulega nálægt Breiðholti.