Almenn færsla, Fólk og náttúra, Lífríki

Mýflugur

Hver truflar hvern?

Frést hefur af mikilli flugu í Vatnsendahverfi undanfarið. Um er að ræða rykmý – nánar tiltekið stóru-toppflugu. Sú tegund er ekki mjög algeng á Íslandi fyrir utan Mývatn og okkar fallega Elliðavatn. Rykmý bítur ekki eins og ættingi hennar bitmýið – en auðvitað geta flugurnar kitlað okkur, þvælst aðeins fyrir okkur, farið í augun á okkur eða við jafnvel gleypt þær þegar þær eru í svo miklu magni. Spyrja mætti sig hvort við mennirnir og mannanna verk séu mögulega truflandi fyrir þessar ótal litlu lífverur sem sannarlega eiga HEIMA á svæðinu og hafa átt þar heima öldum saman.

Fálmarar

Karlflugur rykmýs eru með magnaða fálmara. Með þeirra hjálp skynja þeir hljóðbylgjur í umhverfinu og eru mjög næmir á vængjaslátt kvenkyns rykmýs. Velta má því fyrir sér hvernig rykmýinu líður í hávaða sem oft fylgir þéttbýli. Ætli karlarnir heyri eitthvað í kellunum?

Toppfluga - hún telst til rykmýs sem er ætt mýflugna - (JBH).

Besta ráðið er að vera róleg og hugsa fallega um flugurnar.

Ævi rykmýs – myndbreyting

  1. Fullorðin fluga verpir eggjum í vatn,
  2. úr eggi skríður lirfa,
  3. lirfan púpar sig og flýtur upp á yfirborð vatnsins, í púpunni á sér stað mikil breyting lífverunnar
  4. úr púpunni klekst fluga og flýgur upp frá vatninu.

Lesa meira um rykmý í greiningarlyklum um smádýr.

Rykmýskarl á handarbaki - (SH).

Reynið að veiða flugur og skoðið þær síðan með stækkunargleri eða í víðsjá. Takið sérstaklega eftir fálmurunum. – Gott er að nota sogflösku við veiðarnar og setja síðan flugurnar í skál með gagnsæju loki til að setja undir víðsjána (petriskálar).

Sogflaska - (SH).

Merki um heilbrigða náttúru / heilbrigt vistkerfi

Í tilefni flugnafjöldans var talað við Jón S. Ólafsson vatnalíffræðing í fréttum Stöðvar 2. Hann sagði meðal annars frá því að flugurnar séu afar mikilvægar lífríkinu og Kópavogsbúar ættu að gleðjast yfir magninu, sem væri óvenjulega mikið í ár. – „Þær skipta gífurlega miklu máli sem æti fyrir fugla og fiska, fyrir vistkerfið. Þannig að ég myndi segja að þetta sé jákvætt því það sýnir að Elliðavatn sé heilbrigt. Það er það besta. Ef það væri alveg sterílt þá væri ekkert sérstaklega gaman.“