Fylgist vel með sel sem er úti í sjó eða upp á landi. Eftirfarandi spurningar hjálpa ykkur að gera það markvisst.

 • Hvað er hann að gera?

 • Sér selurinn eða heyrir í ykkur? Hvernig vitið þið það? Prófið að spila fyrir hann á hljóðfæri, t.d. flautu.

 • Sjáið þið hann éta? Hvað ætli selir éti?

 • Flestum finnst selir fallegir. Hvað er fallegt við þá? Hvernig eru þeir á litinn?

 • Eru selir með hendur eða fætur?

 • Líklega sjáið þið selinn fara í kaf. Takið tímann hvað hann er lengi og hversu oft hann fer í kaf. Hugsanlega mætti finna meðaltímann. Gerir hann eitthvað annað?

 • Hvað ætli selirnir sjái neðansjávar?

 • Sjáið þið seli uppi í fjörunni? Lýsið hreyfingum þeirra eða hermið eftir þeim!

 • Ef þið sjáið fleiri en einn sel, takið þið þá eftir einhverjum samskiptum þeirra á milli?

 • Á hverju lifa selir og ætli þeir finni þá fæðu á þeim stað sem þið sjáið þá?

 • Taka selirnir eftir ykkur og hvernig vitið þið það?

 • Getið þið greint hvort um er að ræða brimla, urtur eða kópa?

KENNARAR

Í framhaldinu mætti gera eftirfarandi (meta eftir þroska og stöðu nemenda):

 • Skoða ýtarefni um seli – leggja áherslu á að skoða og ræða um myndir.

 • Leika seli og líkja vel eftir þeim. Fara fyrst yfir hvað selir gera!

 • Teikna selafjölskyldu. Fara fyrst yfir útlitsmun kynja og afkvæma.

 • Búa til lag sem á að laða seli nær landi, með eða án söngtexta.

 • Birta niðurstöður athugana í skýrslu eða sem skjásýningu.

 • Kanna kortasjá sem sýnir selalátur við Ísland á vef Náttúrufræðistofnunar.

 • Útbúa fræðslubækling um seli.

 • Velja einstakling og segja honum nákvæmlega frá hvað þið sáuð og hvað þið vitið um seli.