Á ferð og flugi
Á Kópavogsleiru koma fuglar við á leið sinni til Grænlands og Kanada þar sem eru þeirra sumarheimkynni. Á vetrum halda þeir sig aðallega í Vestur-Evrópu. Á Íslandi éta þeir og safna orku til áframhaldandi flugs. Nyti ekki leiranna við væri óvíst að þessum fuglum tækist að komast alla leið. Leirurnar hafa því gildi fyrir lífríki fleiri landa en Íslands.
Fuglar sem koma á þennan hátt við á Íslandi að vori og hausti eru nefndir umferðarfarfuglar. Rauðbrystingar og margæsir eru meðal þeirra og eru áberandi á Kópavogsleiru.
Rauðbrystingur
-
Lesið um rauðbrysting á fuglavefnum. Skoðið einkum hvar sumar- og vetrarheimkynni hans eru.
-
Stillið ykkur upp, hreyfið ykkur sem minnst og fylgist með flugi rauðbrystinganna í nokkurn tíma:
-
Ef einn flýgur upp, fer þá allur hópurinn á eftir? – Verða kannski einhverjir eftir, hversu margir?
-
Fljúga fuglarnir alltaf upp vegna einhverrar truflunar? Ef svo er, hvers konar?
-
-
Þið gætuð fylgst með fleiri fuglum með þessar spurningar í huga. Nærtækt væri að fóðra snjótittlinga og fylgjast með hegðun þeirra.
-
Getið þið nefnt önnur dýr en fugla sem halda sig í hópum?
Nafn rauðbrystings er lýsandi fyrir hann. Brystingur er skylt orðinu brjóst. Hann er sem sagt rauður á brjóstinu. Hann er nú reyndar rauðbrúnn og það á höfði, hálsi, bringu og kviði, en dökkur að ofan og dröfnóttur. Þannig er hann á sumrin. Á haustin og á veturna verður hann allur gráleitari og rauða brjóstið hverfur. Rauðbrystingar eru gjarnan saman í stórum hópum og er magnað að sjá þá fljúga saman í takt.
Fuglahópar
Það getur verið gott fyrir fugla að vera í hópum. Rannsóknir hafa sýnt að minni líkur eru þá á því að verða fyrir árás óvinar.
-
Flokkurinn getur verið nokkuð óárennilegur og sumar tegundir reyna að snúa vörn í sókn.
-
Í hópi eru alltaf einhverjir einstaklingar sem verða varir við hættuna í tíma. Fuglarnir eru því almennt rólegri hvort sem þeir eru að næra sig eða hvílast.
-
Hópur fugla er fljótari að finna fæðu en stakir fuglar. Betur sjá augu en auga.
-
Í sumum tilfellum getur flokkur fugla laðað að óvini.
Dæmi um fleiri fugla sem halda sig í hópum: þrestir, snjótittlingar, lóuþrælar, heiðlóur, sendlingar, starar og hrafnar.
Margæs
Margæs er minnsta gæsategundin á Íslandi. Margæsin flýgur hratt og er létt á sér á sundi. Hún heldur sig meira á og við sjó en aðrar gæsir hérlendis. Eins og aðrar gæsir er margæs að mestu jurtaæta. Hún bítur grös og sækir í plöntu sem heitir marhálmur. Sú planta vex aðallega við vesturströnd landsins, á grunnsævi í lygnum sjó. Það á einmitt við Kópavog.
Heilsið upp á hana þegar hún er á ferð.
-
Lesið um margæs á fuglavefnum. Skoðið einkum hvar sumar- og vetrarheimkynni hennar eru.
-
Skoðið byggingu marhálms. Með þetta útlit gæti hann líklega ekki vaxið á þurru landi.
- Hvað þýðir orðið mar? Munið þið eftir fleiri orðum með orðhlutanum mar?
Alls konar aðrir fuglar
Aðrar fuglategundir sem halda sig mikið á Kópavogsleiru eru tildra, tjaldur, sendlingur, heiðlóa, lóuþræll, sandlóa og stelkur. Æðarfuglar, rauðhöfðaendur og stokkendur láta líka oft sjá sig. Nokkrar tegundir máfa sækja líka í Kópavog. Fer það nokkuð eftir árstíma hvaða tegundir eru mest áberandi. Á vorin er mjög mikið um hettumáf, á sumrin er mest um sílamáf en á veturna er nokkuð um hvítmáf. Ýmsir fleiri fuglar bæði endur og vaðfuglar sjást endrum og eins á leirunum.
-
Kynnið ykkur þá fugla sem hér eru taldir upp. Skoðið sérstaklega ferðir þeirra. Eiga þeir eitthvað sameiginlegt?
Á vettvangi:
- Horfið yfir leiruna, ströndina og upp í himininn.
-
-
Hvar eru fuglar?
-
Hvað eru þeir að gera?
-
Hvað sjáið þið um það bil marga fugla?
-
Þekkið þið fuglana?
-
KENNARAR / FULLORÐNIR
Margæsahátíð
Margæs er áberandi á Kópavogsleirum og ekki úr vegi að hampa henni – og halda hátíð. Dregur athygli á skemmtilegan hátt að lífríkinu.
- Marhálmur er eina íslenska blómplantan sem lifir í sjó.
- Gott er að vita hvenær von er á umferðarfarfuglunum til landsins:
Fuglahópar
Lagt er til að nemendur fylgist með fuglum sem eru í hópum. Hvort og hvernig skráning á þessum athugunum fer fram gæti verið frjálslegt og hugsanlega í framhaldi af umræðu með kennara. Hugmyndir: náttúrudagbók, lauslegar skráningar sem nemendur síðan ræða sín á milli, myndband með tali, veggspjald, glærusýning.