Lífríki

Fuglar og vor

Það er gaman að fylgjast með fuglunum á vorin. Farfuglarnir koma einn af öðrum og þeim fylgir söngur sem við heyrum ekki á veturna. Fuglapör makast og fuglarnir gera sér hreiður. Síðan kemur að varpi, klaki (þegar ungar skríða úr eggjum) og uppeldi unga.

Það er í nógu að snúast og margt að sjá!

Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir stokkendur makast. Við mökun ná sæðisfrumur frá karlfuglinum að sameinast eggjunum, sem vaxa inni í kvenfuglinum. Við það verða eggin frjó. Einungis í frjóum eggjum geta þroskast ungar.

Takið eftir hvernig stokkendurnar láta. Þetta er kallað mökunaratferli. Biðlunar- og mökunaratferli er oft sérstaklega áberandi hjá öndum.

Hafið augun opin fyrir sérkennilegu háttalagi fuglanna í kringum ykkur. Oft tengist það því þegar fuglarnir para sig eða undirbúa mökun.

Lýsið með ykkar orðum hvernig stokkendurnar fara að.

Getið þið kannski hermt eftir hvernig þær hreyfa hausinn?

Hvaða fuglum heyrum við í?

Vísbending:

  • sá fyrsti í röðinni er gjarnan kallaður vorboði og fréttir berast af því þegar hann, eða eiginlega hún, sést fyrst á vorin,
  • stundum er sagt að sá næsti hneggi (allt öðruvísi hljóð heyrist í honum þegar hann er á jörðu niðri)
  • og sá þriðji kann að sjóða graut.

Þetta eru nú meiri fuglarnir!

Hlustið á raunverulega fugla úti í náttúrunni.

GLEÐILEGT SUMAR!