Almenn færsla, Fólk og náttúra, Lífríki

Fregnir úr Snælandsskóla

Á vef Snælandsskóla birtust nýlega skemmtilegar fréttir sem tengjast námi um náttúruna.

Fyrri fréttin segir frá því að nemandi hafi komið með mús í skólann.

Kjörlendi músa er gróið land og grafa þær holur í jörðina og eru þar með bæli og forðabúr með fæðu. Þær éta fyrst og fremst ber, fræ og skordýr. Ef þær komast í mannamat éta þær hann, t.d. súkkulaði, kex og ost. Þið getið kannski nefnt fleiri dæmi?!

Það er frábært þegar nemendur koma með eitthvað áhugavert til að sýna skólasystkinum sínum og kennara. Það gerir námið enn skemmtilegra.

Lesa um mýs á vef Menntamálastofnunar, Íslensku landspendýrin

  • Veiða má mýs án þess að drepa þær og fylgjast aðeins með þeim og skoða. Hægt er að kaupa gildru eða bara hanna eigin gildru. Sjáið þið einhvern mismun í útliti músanna?
Músin - (myndin er af vef Snælandsskóla).
  • Af hverju er sumu fólki illa við mýs?
  • Hvaða dýr og fuglar éta mýs?
  • Mýs koma stundum fyrir í sögum. Nefnið dæmi um það og segið lauslega frá hlutverki þeirra í sögunni.

Seinni fréttin fjallaði um nýja víðsjá, könguló og flugu. Það má geta sér til um hver atburðarásin var í þeirri frásögn.

Það sem gerir köngulær sérstaklega áhugaverðar er hæfileiki þeirra til að spinna silkiþráð. Þráðinn nota þær á ýmsa vegu. Í þessu tilviki var bráðinni pakkað inn!

Það er skemmtilegt að skoða smádýr í víðsjá.

Könguló í gegnum víðsjárgler - (mynd af vef Snælandsskóla).

Safnið og skoðið í víðsjá eða með stækkunargleri alls konar pöddur og orma á yfirborði og í jarðvegi. Notið sogflösku, fallgildru, spaða eða fiðrildaháf við veiðarnar. (Sjá lista yfir áhöld.)