Hér eru frásagnir af lífverum sem hafa orðið fyrir áhrifum af þéttbýli.

Í þéttbýli:

  • er aldrei alveg dimmt,
  • er oft hávaði eða truflandi hljóð,
  • eru minni loftgæði, einkum vegna umferðar,
  • er sjaldnast villt gróðurlendi,
  • er ekki vítt til allra átta (víðerni),
  • eru holræsi og alls konar leiðslur ofan í jörðinni,
  • er lítið um frjálsa læki og votlendi,
  • eru byggð alls konar mannvirki (sem geta þó minnt á kletta),
  • ….
Gæsir kunna vel að meta brauðið - (SH).

Máfar

Máfar, einkum sílamáfar, sækja í byggð þar sem eitthvert æti er að fá. Þeir eru naskir að finna eitthvað gott þar sem fólk hendir frá sér. Þeir vita líka hvað tímanum líður og mæta á torgið fyrir utan pylsusjoppuna í hádeginu þegar mest er að gera.

Fylgist með máfum við æti.

  • Eru þeir varir um sig? (Hvernig vitið þið það?)
  • Eru sumir duglegri/frekari en aðrir?
  • Hvernig fara þeir að?
  • Hvað eru þeir að éta?

Fóðraðir fuglar

Ákveðinn hópur fugla treystir á fóðurgjafir og sleppir flugi á vetrarstöðvarnar. Dæmi um þetta eru endur og gæsir sem éta brauð. Skógarþrestir, starar og svartþrestir kunna líka að meta að vera fóðraðir og þeir finna sér skjól inn á milli húsa. Hlýnandi veðurfar stuðlar líklega einnig að þessum vetursetum.

Lesið um fóðrun garðfugla hjá Fuglavernd. Þætti ykkur spennandi að fóðra fuglana á skólalóðinni eða heima? Besti árangurinn fæst ef það er gert reglulega. Þá koma fuglarnir aftur og aftur.

Eru fuglarnir loðfóðraðir?

Tjaldar

Kjörlendi tjalda eru fjörur. Þeir eru þrautþjálfaðir í að stinga nefinu ofan í sandinn og hitta á gómsætan skelfisk. Tjaldar hafa líka lært að nýta sér grasflatir þéttbýlisins og stinga þar nefinu ofan í svörðinn eftir ánamöðkum til að kjamsa á.

Hafið augun opin fyrir tjöldum í fjöru og tjöldum uppi á landi. Fylgist með þeim. Hvað eru þeir að gera?

Starar

Lögun og stærð vængs skiptir máli í flughæfni og flugstíl. Vængir endurspegla gjarnan búsvæði og lífshætti fuglanna.

Langir og hvassir vængir henta vel á hröðu flugi í beinni línu, en breiðir, stuttir og ávalir vængir eru góðir þegar taka þarf snöggar beygjur eða taka skjótt á loft. Það er verðmætur eiginleiki í borg og bæjum með köttum og bílum.

Rannsóknir erlendis hafa sýnt að vængir stara sem lifa í þéttbýli hafa smám saman breyst og eru sýnilega öðruvísi en á þeim fuglum sem lifa í dreifðari byggðum.

  • Lesið um vængi á fuglavefnum.
  • Fylgist með flugi ólíkra fugla.
    Blaka þeir mikið vængjunum?, fljúga þeir skrikkjótt?, teiknið með blýanti flugferla ólíkra fugla.

Þrestir

Skógarþrestir á höfuðborgarsvæðinu nota hærri tóna og eru almennt háværari en þrestir dreifbýlisins. Þeir þurfa að yfirgnæfa hljóð þéttbýlisins til að ná árangri. Það er jú ástæða fyrir því að þrestir syngja. Lesa um sönginn. Nú og svo gera þeir sér hreiður hátt í trjánum enda mikil hætta á ferð þar sem kettir eru á hverju götuhorni.

Hlustið á skógarþröst og takið upp hljóð hans ef þið hafið tök á. Hver er árstíðin? Ætli þetta sé karlfugl að laða til sín kvenfugl með fallegum söng – eða er þetta annars konar söngur eða hljóð?

Dúfur

Dúfur eru algengar í borgum víða um heim. Búsvæði dúfna í villtri náttúru eru klettar, en líta mætti á hús sem eins konar kletta.

Á Íslandi lifa bjargdúfur og húsdúfur. Húsdúfa er afkomandi bjargdúfu og það er hún sem er í þéttbýlinu. Meindýraeyðar hafa haldið niðri fjölda fuglanna (sjá Vísindavefinn). Lesa um dúfur á Fuglavefnum.

Dúfur eru afar sjaldséðar í Kópavogi, en lítill fugl (minni en dúfa) hvíslaði því að nokkrar tamdar dúfur væri þar að finna.

Í Neskaupsstað eru dúfur.

Svartþrestir

Svartþrestir hafa tekið sér bólfestu í borgum og bæjum víða um heim. Fyrstu heimildir um það eru frá 1828 en þá höfðu þeir komið sér fyrir í Róm. Annars lifa svartþrestir í skógi.

Svartþrestir komust til Íslands um 1980.

Svartþrestirnir hafa þróast á eigin forsendum í ólíkum borgum. Sumt gerist þó alls staðar:

Goggurinn minnkar og má eflaust skýra það með því að auðveld og næg fæða er aðgengileg. Ekki þarf að vasast í að brjóta hnetur og fræ svo dæmi sé tekið.

Svartþrestir bæja keppa ekki við umferðarhljóð og hefja því söng sinn fyrr á morgnana en þeir í skóginum.

Svartþrestir bæja treysta á fæðu frá mönnum, en svartþrestir skógarins færa sig til vænlegri staða á veturna. Svartþrestir bæjanna verpa fyrr enda fer enginn tími í farflug.

Svartþröstur - (JÓH).

Karlflugur rykmýs eru með magnaða fálmara. Með þeirra hjálp skynja þeir hljóðbylgjur í umhverfinu og eru mjög næmir á vængjaslátt kvenkyns rykmýs.

Velta má því fyrir sér hvernig rykmýinu líður í skarkala í sumum bæjarhlutum Kópavogs. Ætli karlarnir heyri eitthvað í kellunum?

Rykmýskarl á handarbaki - (SH).

Setjið ykkur inn í hljóðheiminn í Kópavogi. Það hjálpar að hafa augun lokuð. Prófið þetta á mismunandi tímum og stöðum. Reynið að setja ykkur í spor rykmýs.

Hvernig í ósköpunum – rykmý er með sex lappir!

Fiðrildi

Fljúgandi skordýr sækja gjarnan í ljós. Á haustin er til dæmis algengt að sjá fiðrildi á upplýstum útiveggjum. Ástæðan fyrir þessu er ekki vel kunn, en álitið er að skordýr noti tunglið og skærar stjörnur til að vísa sér veginn og þau fljúgi beina leið í átt að þeim. Rafmagnsljós, já og bál eða logi, virka á sömu leið og stundum með slæmum afleiðingum fyrir dýrin.

Takið eftir fiðrildum á upplýstum stöðum að hausti. Lýsið aðstæðum og hversu mörg þau eru. Fylgist með af og til í nokkra daga. Er staðan ólík að morgni og kvöldi?

Biðukolla - (SH).

Fíflar

Fíflar eru af körfublómaætt. Hvert blóm er í raun og veru samsett af mörgum litlum gulum blómum í körfu.

(SH)

Eftir blómgunartíma lokast karfan en opnast nokkru seinna og þá sem biðukolla. Fræin geta svo flogið af stað. Ef mikið er um stéttar og malbik í umhverfinu, eins og oft er í þéttbýli, eru talsverðar líkur á að fræið lendi á óheppilegum stað þar sem það nær ekki að festa rætur.

Í erlendum rannsóknum hefur komið fram að fíflar sem vaxa í borgum eru með aðeins þyngri fræ og minni svifhár. Það verður til þess að þau svífa ekki eins langt og lenda nálægt móðurplöntunni… þar sem er líklega einhver jarðvegur.

Skoðið nákvæmlega líkamsbyggingu fífils á öllum þroskastigum. Hvað ætli séu mörg fræ á hverri biðukollu? Hvað ætli séu mörg blóm í hverri körfu? Sjáið þið fræfla og frævur?

Ullblekill

Sveppurinn ullblekill hefur mikið þol fyrir mengun og er algengt að sjá hann nálægt fjölförnum götum. Hann vex annars í fjölbreyttu landi sem hefur verið raskað.

Ullblekill - (SH).

Finnið ullblekil og rannsakið. Lesið um hann á Flóra Íslands vefnum. Á hvaða þroskastigi er hann samkvæmt lýsingunum þar?

Pælið í hvar ullblekillinn vex. Takið myndir af honum þar sem umhverfið sést vel.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Nálgun

Ætti að vera hægt að fara yfir lífverurnar, eina og eina og gera þannig meira úr þessu efni. Það léttir líka og er tilvalið þegar yngri börn eiga í hlut.

Fiðrildi 

Þó fiðrildi á Íslandi séu í fæstum tilvikum litrík eru þau mjög falleg. Af og til slæðast þó litrík fiðrildi til Íslands og þá verður iðulega uppi fótur og fit.

Fiðrildi eiga það sameiginlegt að hár hafa ummyndast í hreisturflögur sem þekja bol og vængi. Það er áhugavert að skoða þessar lífverur í gegnum víðsjá og stækkunargler. Jafnframt er sterk upplifun að fylgjast með hamskiptum frá lirfu í púpu, frá púpu í fiðrildi.