Hvað er lífbreytileiki?

Orðið lífbreytileiki (=líffræðileg fjölbreytni) þýðir einfaldlega fjölbreytileiki alls lífríkis.

Fjölbreytileikann má víða finna. Þannig eru fjölbreyttar lífverur í mismunandi umhverfi; á landi, í sjó, vötnum og jafnvel innan í öðrum lífverum.

Fjölbreytnin felst í:

    1. lífverutegundunum
    2. fjölbreytni innan tegunda og
    3. fjölbreytni lífverusamfélaga og vistkerfa.

1) Það eru til alls konar lífverur: nashyrningar, bláklukkur, flugur, bakteríur, lundar, sveppir, appelsínutré, selir, laxar og svo framvegis.

2) Einstaklingar sömu tegundar virðast kannski allir eins. Við nánari athugun má sjá mun. Snjótittlingar eru til dæmis ekki allir eins, hvað þá íslenski hesturinn.

3) Lífverur á tilteknum stað, eða í ákveðnu vistkerfi, mynda tengsl hver við aðra, t.d. í fæðuvef eða með samlífi. Stundum er talað um lífverusamfélög. Lífverurnar eru jafnframt háðar umhverfi sínu (t.d. vatni, gjótum eða víðáttu). Eftir því sem umhverfið er fjölbreyttara eru aðstæður fyrir lífverur sömuleiðis fjölbreyttari. Við gætum séð fleiri tegundir lífvera og fleiri afbrigði tegundanna. Slík fjölbreytni styður við heilbrigða starfsemi vistkerfa.

Pistill um breytingar á líffræðilegri fjölbreytni í þættinum Samfélagið, 13. janúar 2022 – Hafdís Hanna Ægisdóttir – HLUSTA

Minnkandi lífbreytileiki

Líffræðileg fjölbreytni fer því miður mjög minnkandi í heiminum.

Útdauði tegunda og eins stofna innan tegunda er miklu, miklu hraðari en hann hefur verið áður í sögu lífsins. Dýr eru ofveidd og villtum búsvæðum er raskað eða umbreytt. Oft er það gert til að geta ræktað upp akra eða beitarlönd og til þess að koma fyrir byggð. Mengun og loftslagsbreytingar stuðla líka að óæskilegum breytingum á búsvæðum og gera þau einsleitari. Sömuleiðis valda ágengar framandi tegundir því að vistkerfi verða einsleit.

Hvað er hægt að gera?

Svarið felst í ákveðinni afstöðu fólks og hegðun. Hvað dettur ykkur í hug?

Skoðið þessa mynd. Hún segir mikið jafnvel þó þið skiljið ekki alveg það sem David Attenborough segir.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Um 1,78 milljónir tegunda lífvera hafa verið greindar og gefið heiti. Heildarfjöldi lífverutegunda í heiminum er óþekktur en er líklega á bilinu 5-30 milljónir.