Alaskalúpína myndar breiður - (SH).

Lúpína – mögnuð jurt

Alaskalúpína hefur verið notuð í landgræðslu víða. Hún telst til belgjurta. Þetta er dugleg planta sem þrífst við erfiðar aðstæður og myndar sinn eigin áburð með hjálp baktería sem lifa við rætur hennar.

En lúpína breiðir líka úr sér þar sem fyrir er fjölbreyttur villtur gróður sem lætur undan í samkeppninni. Mjög erfitt hefur reynst að hemja alaskalúpínu og víða hafa myndast miklar og einsleitar lúpínubreiður. Hún er algeng í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, meðal annars í landi Kópavogs. Lúpína er ágeng tegund.

Lífvera sem flutt er í ný heimkynni til ræktunar eða annarra nota en breiðist út og veldur tjóni á náttúru sem fyrir er kallast ágeng tegund.

Belgjurtir lifa í sambúð með bakteríum í jarðveginum. Bakteríurnar binda köfnunarefni (=nitur) úr lofti sem er í jarðveginum og mynda einnig hnýði við ræturnar, rótarhnýði.

Köfnunarefni virkar sem áburður og kemur það sér vel fyrir plöntuna sem vex betur og jarðvegurinn í grennd verður næringarmeiri. Bakteríurnar græða líka á sambúðinni þar sem þær fá orku (kolefni) frá plöntunni.

Hvítsmári, rauðsmári, umfeðmingur, giljaflækja og baunagras eru íslenskar belgjurtir sem vaxa villt í náttúrunni.

Skógarkerfill

Sömuleiðis hefur skógarkerfill dreift sér mikið víða um land. Hann er hávaxinn og frekur á plássið og kaffærir aðrar plöntur. Í upphafi var skógarkerfill skrautjurt í görðum, en fór svo út fyrir lóðarmörkin svo um munaði.

Stafafura

Stafafura er innflutt og ágengt trjátegund og er mikið notuð í skógrækt. Víða má sjá að hún er farin að sá sér. Ástæða er til að fylgjast með útbreiðslu hennar og vonandi tekst að hafa stjórn á henni.

Minkur

Í Kópavogi má stundum sjá mink. Minkur var fluttur til landsins til þess að rækta á loðdýrabúum, fyrst árið 1931. Einhver dýr sluppu út og minkur náði fljótlega fótfestu í  náttúrunni. Hann fékk nóg að éta og átti enga óvini – nema veiðimenn.

Frjáls kanína (Wikipedia)

Kanínur

Kanínur eru ósköp sætar – en sæt og falleg dýr geta líka talist ágeng. Kanínur eru nagdýr og fara illa með gróður. Þær geta til dæmis drepið tré með því að naga af þeim börkinn. Kanínur hafa neikvæð áhrif á sumar fuglategundir. Kanínur fjölga sér mjög við góðar aðstæður. Ef þið eigið kanínur verðið þið að passa þær.

Vargsnigill

Vargsnigill er ágengur víða erlendis og hefur nú borist til Íslands, líklega með innfluttum plöntum. Hann er ekki algengur ennþá en gæti haft slæm áhrif ef honum fjölgar, einkum á gróður. Hann er ennþá bundinn við þéttbýli. (Framan af var hann nefndur spánarsnigill.)

Búrbobbi

Búrbobbi er snigill sem er talsvert notaður í fiskabúrum enda er hann afkastamikill í að éta lífrænar leifar og heldur þannig búrinu hreinu. Uppruni búrbobba er líklega í Norður- Ameríku, en hann hefur dreifst talsvert um heiminn.

Á Íslandi fannst hann fyrst í Fossvogslæk!! Álitið er að búrbobbi geti orðið ágeng tegund hér á landi og keppt við aðrar tegundir snigla sem lifa í volgu ferskvatni.

  1. Rannsakið lúpínu og skoðið byggingu hennar: blómin, fræhirslur, laufblöðin og ræturnar. Finnið þið rótarhnýði?

  2. Lúpína nær sér gjarnan á strik á bersvæðum og mólendi. Hvaða plöntur ætli séu þar fyrir? – Skoðið staði þar sem lúpína vex og skoðið lífríki í nágrenninu sem gæti verið í hættu.

  3. Kynnið ykkur mink. Hvernig lifir hann og hver er hans helsta fæða? Af hverju er hann talinn með ágengum tegundum?

  4. Lesið um vargsnigil á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ef illa færi hvað myndi þá gerast? Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir fjölgun vargsnigils?

  5. Lesið um búrbobba á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar er sagt frá fleiri búrbobbum í Kópavogi.
    • Hvernig væri best að losa sig við lífverur fiskabúrs?
  6. Stundum er búsvæði sagt vera einsleitt. Hvað merkir það?

  7. Lífbreytileiki og ágengar tegundir eru hugtök sem tengjast. Hvernig þá?

KENNARAR / FULLORÐNIR

Fjallað er um ágengar dýrategundir og ágengar plöntur á vef Náttúrufræðistofnunar.

Skýrsla um langtímaáhrif lúpínu á gróðurfar á Íslandi, gefin út af Náttúrufræðistofnun Íslands.https://utgafa.ni.is/skyrslur/2018/NI-18005.pdf

Hér er alþjóðlegur gagnagrunnur um ágengar tegundir. Þar er meðal annars fjallað um stafafuru: https://www.cabi.org/isc/datasheet/41577#tosummaryOfInvasiveness

Verkefni – 2.
Nemendur gætu teiknað útbreiðslu lúpínu og skógarkerfils í nágrenninu og gert aðgerðaráætlun um stöðvun útbreiðslu þessara ágengu plantna.

Lífbreytileiki og ágengar tegundir – 7.

Hér skal bent á umfjöllun um tengingu ágengra framandi tegunda og lífbreytileika í námsefninu, Náttúra til framtíðar.