(tileinkað fórnarlömbum möweofsóknanna á Íslandi).

 

Ó reiðhjól best, þú rennur utan stans,
jafnrennilegt að aftan sem að framan.
Þú varst stolt hins þýska verkamanns
sem þreyttum höndum skrúfaði þig saman.

Ættjörð þín var ótal meinum hrjáð,
af þeim sökum hlaustu úr landi að fara.
Sjá hér þín örlög: utangarðs og smáð
í auðvaldslandi köldu á norðurhjara.

Í landi þessu, létta mjúka hjól,
þú lentir brátt í mínum ungu höndum.
Ég fylltist gleði er fékk ég þig um jól
og fegurð þín var svört með hvítum röndum.

Við ókum saman yfir hvað sem var,
enginn tálmi sá við þínu drifi.
Þýður gangur þinn af öllum bar,
því skal ég aldrei gleyma meðan lifi.

Og þá var ekki vont að vera til,
um veröldina liðum við í draumi.
En óvinurinn beið á bakvið þil
og brýndi klærnar ótt og títt í laumi.

Svo spratt hann fram og spottaði þig, hjól,
sparkaði í þig, jós þig nöfnum ljótum:
,,möwedrusla ,,drasl og skrapatól
,,dekkin riða ,,sætið meiðir scrotum.

Og áróðurinn undirlagði mig,
auðvaldslygin spillti hjarta mínu:
Einsog fantur flekkaði ég þig
og fyrirgerði öllu trausti þínu.

Ég málaði þig blátt og breytti um hnakk
og bætti síðan enn um fólskuverkið:
Ég dró úr pússi mínu lútsterkt lakk
og lakkaði yfir stolt þitt: vörumerkið.

Þú týndir öllu, eðli þínu firrt,
úr þér streymdi lífsnautnin og safinn.
Þú misstir heilsu, gerðist stíft og stirt,
þín stóra sál var bæði dauð og grafin.

Þannig fer ef vilji manns er veill,
vönkuð lundin allt hið rétta svíkur.
Það er best að vera hreinn og heill,
í hug og verki traustu bjargi líkur.

Þið skelfið mig ei lengur hætishót
heimsku þý sem alla gleði stýfið.
Ég hef iðrast, ég skal gera bót,
ég skal renna á Möwe gegnum lífið.

Þórarinn Eldjárn (1949 –