Lofthjúpur
Lofthjúpur umlykur Jörðina. Súrefni og köfnunarefni mynda meginhluta hans. Í honum eru einnig lofttegundir sem endurkasta varmageislun frá Jörðinni aftur til hennar. Þessar lofttegundir virka líkt og gler í gróðurhúsi og eru því oft kallaðar gróðurhúsalofttegundir.
Með hjálp gróðurhúsalofttegunda (í hæfilegu magni) hefur skapast kjörhitastig á Jörðinni fyrir fjölbreytt líf.
Svo fór að hlýna
Frá iðnbyltingunni, snemma á 19. öld, hefur hitastig á Jörðinni farið hækkandi. Í fyrstu voru breytingarnar mjög hægar. Aukið magn gróðurhúsaloftegunda í lofthjúpnum af manna völdum er skýringin. Með hverju ári hefur styrkurinn aukist hratt og nú er hlýnunin orðin hættuleg. Jöklar bráðna, yfirborð sjávar hækkar, vistkerfi raskast, sjór súrnar og öfgar í veðri aukast.
Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi tengist einkum:
-
bruna á jarðefnaeldsneyti (olíu og bensíni) í tengslum við samgöngur og fiskveiðar
-
efnanotkun og bruna í iðnaði – einkum í álbræðslu og kísilverum
-
búfé (iðragerjun = prumpi!) og áburðarnotkun
-
úrgangi, einkum þeim sem er urðaður og brenndur
-
breyttri landnýtingu – losun er t.d. álitin mikil á framræstu landi (sjá skurði) og þar sem er mikil rotnun
Íslendingar stuðla sömuleiðis að losun gróðurhúsalofttegunda með því að kaupa vörur sem hafa verið fluttar langan veg eða framleiddar á óumhverfisvænan hátt.
- Finnið myndband á vefnum sem sýnir bráðnun hafíss á norðurpólnum.
- Farið vel yfir listann um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Vantar eitthvað?
- Ekki er brennt jarðefnaeldsneyti þegar farið er um á reiðhjóli. Að hjóla er hollt fyrir líkamann og umhverfið.
-
Skoðið hjólastígakerfið á vefsjá Kópavogs – veljið hjólaleiðir.
-
Á nokkrum stöðum er fylgst með fjölda hjólandi og gangandi. Kannið umferðina og setjið niðurstöðurnar fram á myndrænan hátt.
-
Skrifið um hjólið ykkar ljóð eða sögu! (Veljið annað farartæki ef þið eigið ekki hjól).
-
-
Ræðið eftirfarandi spurningu og skráið niður hugmyndirnar ásamt nokkrum orðum til að rökstyðja:
Hvað getið þið (fjölskyldan / skólinn / Kópavogsbær / ríkisstjórnin) gert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? - Að rækta matjurtir er skemmtilegt og gefandi. Sumir hafa pláss við húsið sitt en svo er líka hægt að fara í skólagarðana eða leigja garð á vegum Kópavogsbæjar.
-
-
Það eru ýmsar ástæður fyrir því að það er umhverfisvænt og gott fyrir loftslagið að rækta eigið grænmeti – hjálpist að við að finna þær.
-
Hvaða grænmeti er auðvelt að rækta á Íslandi? – Hvaða grænmeti þarf að rækta í gróðurhúsi?
-
-
Búið til myndatvennur um tvær leiðir til að gera eitthvað – þar sem önnur er umhverfisvænni en hin.
<<<
KENNARAR / FULLORÐNIR
- Stöðugar fréttir eru af hlýnun jarðar. Hægt að velja úr þeim til að ræða.
- Hvað getið þið (fjölskyldan / skólinn / Kópavogsbær / ríkisstjórnin) gert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? er stór spurning. Hún gæti verið á dagskrá um nokkurn tíma.
- Möwekvæði fyrir elstu nemendurna.
- Námsefni um loftslagsbreytingar:
- CO2 – Framtíðin í okkar höndum – Bók
- Grænfánaverkefnið fjallar m.a. um loftslagsbreytingar – Skoða vef
- Hvað höfum við gert? og Hvað getum við gert? – Þáttaraðir um loftslagsmál.
- Himinn og haf – fræðsluvefur um losun gróðurhúsalofttegunda og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Hentar kennurum og elstu nemendunum.
- Áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands – stuttir heimildaþættir sem henta kennurum og áhugasömum nemendum.
Vefurinn Himinn og haf
Himinn og haf er fræðsluvefur um losun gróðurhúsalofttegunda og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Hentar kennurum og elstu nemendunum. Á vefnum eru mörg gröf og myndir sem áhugavert er að kynna sér og kafa ofan í.
Um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi segir orðrétt*:
Langstærstur hluti losunar frá efnaferlum í iðnaði á Íslandi liggur í framleiðsluferlum álvera og kísil-/kísiljárnvera, en þar er kolefni notað til að fjarlægja súrefnisfrumeindir úr hráefninu og framleiða málma. Annars vegar eru kol, koks og viðarkurl notuð í kísilverum og járnblendiverksmiðjum til að afoxa kvars og hins vegar eru kolefnisrík rafskaut notuð í álverum til að afoxa súrál.
Langstærstur hluti losunar frá orku stafar af brennslu jarðeldsneytis (bensíns og dísils) í samgöngum og fiskveiðum.
Losun frá landbúnaði stafar að mestu af vindgangi jórturdýra (metanmyndun í meltingarvegi, („iðragerjun“)) en má einnig rekja til geymslu og meðhöndlunar húsdýraáburðar og áburðarnotkunar.
Þá losna gróðurhúsalofttegundir þegar úrgangur er meðhöndlaður með urðun, brennslu eða jarðgerð, svo og vegna niðurbrots lífrænna efna í fráveituvatni.
* Athugið að þarna er ekki talin með losun vegna landnotkunar/landnýtingar, breyttrar landnotkunar og skógræktar (LULUCF), alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga. (Sjá hugtök og orðskýringar á umræddum vef.)